Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:15:35 (304)

2001-10-09 16:15:35# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður er hafa fyrirtækin úti á landi miklu minni hagnað og bera miklu meira tap en fyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur alveg ljóst fyrir að hækkunin á tryggingagjaldinu mun koma illa niður á þeim.

Ég held að menn hafi þurft að hugsa sig kannski aðeins betur um. Mér heyrist á hv. þm. að hann hafi a.m.k. ekki fengið tækifæri til þess að átta sig á því hvort sá mismunur sem verið er að gera núna á sköttum fyrirtækja og sköttum einstaklinga muni valda vandkvæðum af því tagi sem hann var hér að lýsa og ég nefndi áðan. Yfir það þurfa menn að fara betur.

Ég ætla að nefna það líka að hv. þm. talaði um skatt á húsaleigubætur og sagði að það ætti bara við um þá sem borga skatt. Hverjir á Íslandi borga ekki skatt? Ég held að þeir séu ekki orðnir margir því að breytingarnar á undanförnum árum hafa orðið til þess að menn eru farnir að borga skatt af bótum. Og hverjir fá þá ekki húsaleigubæturnar í gróða núna?