Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:17:40 (306)

2001-10-09 16:17:40# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi gagnrýna það að þegar ríkisstjórnin telur vera svigrúm til 7 milljarða kr. skattalækkana að svo lítið komi í hlut láglaunafólks, lífeyrisþega og skuldsettra barnafjölskyldna. Vissulega ber að fagna húsaleigubótunum sem munu gagnast láglaunafólki en þó ekki þeim sem eru á biðlista núna eftir leiguhúsnæði vegna þess að afnám skatta á húsaleigubótum mun hverfa í vaxtahækkanir á lán til leiguíbúða sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Það lítilræði sem tekjuskattur einstaklinga er lækkaður um er fyrst og fremst til komið vegna kjarasamninga og þýðir örfáa hundraðkalla í skattalækkun handa fólki með lágar og meðaltekjur. Sú skattalækkun sem hér er boðuð mun því fyrst og fremst gagnast stórfyrirtækjum og stóreignamönnum.

Það er líka ástæða til að gagnrýna það, herra forseti, að ríkisstjórnin er, a.m.k. að verulegu leyti, að vísa því til næstu ríkisstjórnar hvernig eigi að fjármagna þessar skattbreytingar. Tryggingagjaldið sem stendur að miklu leyti undir verulegri tekjuskattslækkun á fyrirtæki er ekkert annað en landsbyggðarskattur eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur sýnt fram á og það er fórnarkostnaður landsbyggðarinnar til þess að lækka verulega tekjuskatta á stóreignafyrirtæki sem skila hagnaði.

Herra forseti. Ég gagnrýni líka þá takmörkuðu útreikninga sem fylgja þessum miklu skattalagabreytingum og það vantar víða rökstuðning fyrir því sem sett er fram í þessari greinargerð.

Þegar litið er á tekjuskatta fyrirtækja á þessu og síðasta ári og áætlun næsta árs þá stendur t.d. sú fullyrðing á hálfgerðum brauðfótum að lækkun á skatthlutfalli fyrirtækja á síðasta ári hafi leitt til aukinna skatttekna og virðist sú skýring miklu nærtækari að umsvif fyrirtækja og afkoma fylgi hagsveiflu efnahagslífins en að skattalækkun, t.d. í tekjuskatti, ráði þar nokkrum úrslitum. Þannig er allt of mikið gert úr því að skattalækkanir á fyrirtæki séu eitthvert svar við þeim kreppueinkennum sem alls staðar blasa við. Með sama hætti væri hægt að lækka skatta á almenning í 20% eða lækka neysluskatta verulega til þess að auka kaupgetu fólks sem hefði þá auðvitað áhrif á innspýtingu í atvinnulífið.

Í frv. kemur fram að lækkun tekjuskatts fyrirtækja sé áætluð 2,7 milljarðar kr. með því að lækka skatthlutfallið úr 30% í 18% sem er 40% lækkun og þá hlýtur tekjuskatturinn fyrir lækkun að hafa verið 6 milljarðar og 750 millj. og álagning tekjuskatta árið 2000 var 10,3 milljarðar kr. Samkvæmt fjárlagafrv. er tekjuskattur fyrirtækja í ár áætlaður 8 milljarðar kr. og 6 milljarðar kr. á næsta ári og þá er ekki gert ráð fyrir lækkun tekjuskatts um 2,7 milljarða sem væntanlega kemur fram á árinu 2003. Þannig hafa tekjuskattar á fyrirtæki án þeirra breytinga sem nú eru gerðar lækkað úr 10,3 milljörðum á árinu 2000 í 6 milljarða á árinu 2002 sem er yfir 4 milljarða lækkun á tveimur árum. Lækkun tekjuskatta fyrirtækja er skýrð með efnahagssveiflu niður á við. Ef það er svo er hrunin sú fullyrðing, að mínu mati, í frv. að lækkun skatthlutfallsins á síðasta áratug hafi leitt til aukinna skatttekna. Miklu frekar er skýringin sú að auknar skatttekjur voru afleiðing hagsveiflu og hurfu þegar hún hjaðnaði. Auk þess eiga hóflegir kjarasamningar, eins og ASÍ hefur bent á, líka sinn þátt í hagsveiflu liðinna ára. Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að þetta skattadekur við stórfyrirtækin í landinu sem skila verulegum hagnaði en borga litla skatta til samfélagsins m.a. vegna lágs skatthlutfalls á undanförnum áratug og frádráttarbærni í yfirfæranlegu rekstrartapi, er varla forsvaranlegt auk þess sem þau greiða einungis 10% skatt af arði af fjármagnstekjum sem er afar sjaldgæft ef það þá þekkist nokkurs staðar í samkeppnislöndum okkar.

Réttlætingin á þessari miklu skattalækkun til stórfyrirtækjanna, að hún dragi okkur upp úr niðursveiflunni og skapi hér atvinnu og aukin umsvif sem ríkisstjórnin metur á 3,5 milljarða, er hér því verulega ýkt og ég vara við að menn séu að gleypa þessa skýringu hráa.

Herra forseti. Margar spurningar vakna sem frv. og greinargerðin svara ekki. Í fyrsta lagi spyr maður hvort þetta sé réttur og eðlilegur tími til umfangsmikilla skattalækkana á fyrirtæki --- þeim fylgir mikið tekjutap ríkissjóðs --- á sama tíma og þeir sem verst hafa það í þjóðfélaginu lenda í miklum niðurskurði á fjárlögum næsta árs. Svarið við því er að það er vafasamt og það er spurning hvort vaxtalækkun hefði ekki verið skynsamlegri við þessar aðstæður en stórfelld skattalækkun sem einkum gagnast þeim, eins og ég segi, stórfyrirtækjum og stóreignamönnum. Vaxtalækkun hefði hins vegar gagnast öllum skuldugum einstaklingum og flestöllum fyrirtækjum.

Í öðru lagi vaknar sú spurning hvort jafnræðis milli atvinnugreina sé gætt í skattalækkun. Svarið er að skattalækkunin skilar sér fyrst og fremst til stórra fyrirtækja með mikinn hagnað eins og hefur verið sýnt fram á í þessari umræðu og hækkun tryggingagjalds sem skila á fjármagni í kassann á móti er afar ósanngjörn og skilar engu fyrir lítil eða meðalstór fyrirtæki sem hafa lítinn sem engan hagnað en mikla launaveltu. Einyrkjar og launafólk sem skikkað er á sérstaka verktakasamninga lendir því líka illa í því með þessu tryggingagjaldi. Aftur gæti þetta svo haft, eins og ASÍ hefur réttilega bent á, veruleg verðlagsáhrif, aukna verðbólgu og stuðlað að verulegri kaupmáttarskerðingu.

Herra forseti. Í fjórða lagi vil ég benda á að með þessum breytingum er hugsanlega verið að rýra tekjur sveitarfélaganna, en tilfærsla á rekstri úr einstaklingsrekstri eins og frv. boðar yfir í sameignarfélög og hlutafélög mun skerða útsvarsstofninn. Ég spyr fjmrh. um þá útreikninga. Hvaða áhrif hafa þessar skattalagabreytingar á tekjur sveitarfélaga? Hefur það verið áætlað og hefur verið haft samráð við sveitarfélögin um þessar breytingar? En því fleiri sem hafa möguleika á að flytja verulegan hluta launatekna sinna yfir í arðgreiðslur, sem gerast mun með þeim breytingum sem hér eru boðaðar, því meira rýrir það tekjur sveitarfélaganna og ástæða er til að benda á það nú þegar auka á möguleika á yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélög að einkahlutafélögum hefur fjölgað gífurlega eða um 64% á tæpum fjórum árum. Fjölgunin frá árslokum 1996 eru 4.900 einkahlutafélög og voru þau í október á liðnu ári tæplega 14 þús. Athyglisvert er að á árunum 1997--1999, eða á þremur árum, fóru 685 einkahlutafélög í gjaldþrot og ástæða er til að skoða hvort þetta tengist kennitöluflakki þar sem eigendur fyrirtækja hirða ábatann af rekstrinum en senda reikninginn af opinberum gjöldum til fjmrh. og launakröfur til Ábyrgðarsjóðs launa, enda höfðu afskrifaðar skattaskuldir þrefaldast á árinu 2000 og voru tæpir 12 milljarðar kr. Þetta rekstrarform gefur möguleika, eins og ég nefndi, á að taka hluta launa út í arði og greiða 10% skatt og ábyrgð eigenda er líka takmörkuð við hlutafé sem að lágmarki getur verið 500 þús. kr.

Í þessu sambandi má líka minna á að arðgreiðslur eigenda einkahlutafélaga sem jafnframt fengu greidd laun frá félögum sínum jukust um 53% milli áranna 1998 og 1999 og má ætla að hlutur arðgreiðslna sem aðeins er greiddur af 10% skattur sé vaxandi hlutur í heildarlaunagreiðslum eigenda einkahlutafélaga. Að þessu snýr einmitt spurning mín um hvort verið sé að auka skattlagningu á launatekjur og minnka skattlagningu á fjármagn með þessum breytingum og búa til skattalegt hagræði þannig að hluti launa hjá eigendum fyrirtækja verði enn frekar skattaður með 10% skatti. Það var sett fram í Morgunblaðinu árið 1998 að hagstæðara væri að telja fram fjármagnstekjur en launatekjur og því haldið fram að skattar af 5 millj. kr. tekjum yrðu 200 þús. kr. lægri, og sagt orðrétt, með leyfi forseta:

,,Færa má rök að því að skattalegt hagræði geti verið því samfara fyrir sjálfstætt starfandi einstakling að vera með rekstur sinn í formi einkahlutafélags og reikna sér fjármagnstekjur fremur en reikna sér endurgjald og telja fram launatekjur.``

Herra forseti. Með þessum breytingum nú verður þetta enn hagstæðara en verið hefur. Nú á að opna fyrir það, eins og hér er sagt, yfirfærslu á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög, en í frv. er lagt til að heimilt verði að færa eigur einstaklinga í atvinnurekstri yfir í einkahlutafélag án þess að yfirfærslan hafi í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið sjálft. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Yfirfærsla úr einstaklingsrekstri í hlutafélag án þess að það hafi í för með sér skattskyldar tekjur þýðir að eignir sem eru umfram bókfært verð verða ekki endurmetnar eins og nú er, en samkvæmt núgildandi reglum yrðu eignir --- við getum nefnt t.d. kvóta --- verðlagðar á markaðsverði við afhendingu til hlutafélagsins og söluverðið skattlagt hjá fyrri eiganda, þ.e. einstaklingum, og samkvæmt frv. fer ekki fram neitt skattauppgjör við aðilaskiptin og ekki kemur til skattlagningar fyrr en við sölu félagsins á þessum eignum.

Samkvæmt gildandi skatthlutföllum hefði ekki munað miklu á skattlagningu frá því sem var, herra forseti, en nú verður heldur betur breyting á. Félagið hefði borgað 30% og einstaklingurinn 10% af afganginum og munurinn hefði fyrst og fremst legið í hátekjuskattinum. En með þeirri breytingu á skatthlutföllum sem frv. gerir ráð fyrir er komin upp sú staða að menn geta lækkað verulega skatta að fengnum fyrningum og kvóta í einstaklingsrekstri með því einu að breyta starfseminni í hlutafélag og selja síðan eignir og kvóta út úr félaginu. Í stað skatta upp á 38--45% kemur um það bil 26% skattur. Um það munar verulega þegar verið er að auka á gjafakvótann því að fyrir breytinguna var greiddur 38% skattur og þá að viðbættum hátekjuskatti ef því var til að dreifa en nú er skatturinn einungis 26%. Með þessu frv. er því alveg örugglega verið að örva mjög og fjölga þeim sem taka upp einkahlutafélagaformið. Þeir geta hagrætt skattalega og greitt sér verulegan hluta launa í formi arðs með 10% skatti. Þegar bilið er orðið svona mikið milli skatta fyrirtækja og einstaklingsskatta þá mun þetta örugglega örva það og við munum sjá það á næstu árum. Því spái ég, herra forseti.

Munurinn á skattgreiðslum getur verið nú fyrir skattalagabreytinguna um og yfir 10% eftir skattformum eftir því hvort um er að ræða einstaklinga eða einkahlutafélag og hefur fjöldi einkahlutafélaga farið stöðugt vaxandi eins og ég nefndi. En með þessum skattalagabreytingum verður munur á skatthlutfalli orðinn yfir 20% og enginn efi er á að tilhneiging verður til þess að færa launatekjur í arð og söluhagnað. Það mun stóraukast.

[16:30]

Margir líta svo á að tekjuskattur lögaðila sé í reynd skattur á eigendur og að skattur á fyrirtækin sé bráðabirgðagreiðsla upp í endanlegan skatt eigandans. Nú er hinn endanlegi skattur 37%, þ.e. 30% í hlutafélaginu og 10% af afganginum við arðgreiðslu eða sölu hlutabréfanna. Það er svipað og skattur á launatekjur sem er um 38,5%. Með breytingunum samkvæmt frv. verður skattlagning eigenda 26,2%, þ.e. langtum minni en skattlagning launatekna. Til að jafna bilið þyrfti fjármagnstekjuskattur t.d. sennilega að hækka í um 20--22%. Það er reyndar furðulegt þegar sífellt er með skattalagabreytingu verið að stækka þann hóp sem getur tekið hluta af launum sínum sem arðgreiðslu sem greiddur er af 10% skattur. Maður spyr hvers vegna fjmrh. verður ekki við kröfu lífeyrisþega um að þeir greiði fjármagnstekjuskatt af lífeyrisgreiðslum sínum úr lífeyrissjóðum sem að 2/3 eru ekkert annað en vextir eða fjármagnstekjur.

Herra forseti. Heildarskattlagning fyrirtækja og eigenda þeirra er þegar, fyrir þessa skattalagabreytingu, minni hér en nokkurs staðar annars staðar en í OECD-löndunum. Fullyrðingar í grg. frv. um að breytingar hafi orðið hér á eru alls ekki rökstuddar og virðast ekki byggðar á neinum fyrirliggjandi eða tilgreindum upplýsingum. Staðreyndin er sú að við höfum lækkað skatthlutfall á atvinnurekstur meira á síðasta áratug en nokkur önnur þjóð innan OECD-landanna.

Í yfirliti OECD frá 1999 þar sem fyrirtækjaskattar OECD-ríkjanna eru skoðaðir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu var ekkert land með lægri skatt en við höfðum á íslensk fyrirtæki, þ.e. 1,3% af landsframleiðslu en meðaltal OECD-ríkjanna var 3,3%. Þegar meðaltal 15 ríkja ESB var skoðað var það 3,6%. Skattar á einstaklinga hér á landi voru aftur á móti töluvert yfir meðaltali OECD-ríkjanna eða 12,8% af vergri landsframleiðslu, en meðaltal OECD-ríkjanna var 10,3% og meðaltal ESB-ríkjanna 11%. Fyrirtækjaskattur hefur lækkað frá árinu 1993, úr 45% í 30% og nú er stefnt í 18%.

Ég held, herra forseti, að nær væri að skoða --- efh.- og viðskn. hlýtur að skoða það --- að í stað þess að fara niður með tekjuskattshlutfallið eins og hér á að gera, úr 30 í 18%, þá verði frekar stefnt að því að nýta það svigrúm sem ríkisstjórnin telur sig hafa til að athuga lækkun á stimpilgjaldi og taka þar áfanga sem gagnast mundi bæði fyrirtækjum í heildina litið og eins einstaklingum, ekki síst þeim sem eru íbúðakaupum.

Ég hvet líka til þess að áhrifin af afnámi verðbólguleiðréttinga, sem ég hef ekki tíma til að fjalla um hér, verði skoðuð nákvæmlega. Það hefur komið fram að könnuð hafi verið áhrif verðbólguleiðréttinga á fyrirtæki og niðurstaðan var á þá leið að hagnaður fjármálastofnana og örfárra annarra fyrirtækja hafi aukist við afnám verðbólgureikningsskila en afkoma annarra fyrirtækja versnað.

Ég held, herra forseti, að það liggi nokkuð ljóst fyrir að skattlagning á laun og launatengdar tekjur, lífeyri, bætur og fleira, er miklu meiri en skattlagning á arð af fjármagni og endurgjald fyrir rentu af auðlindinni. Staðreyndin er nefnilega sú að ríkisstjórnin hefur á umliðnum árum, ekki síst með þessari breytingu, horfið frá jafnræði í skattlagningu og gert grundvallarbreytingu á skattkerfinu, fjármagni og stóreignamönnum til hagsbótar á kostnað þeirra sem minna hafa milli handanna. Einstaklingar með sömu tekjur eru skattlagðir misjafnlega eftir því hvernig tekjurnar myndast. Þegar öllu er til haga haldið þá eru einstaklingar með háar tekjur skattlagðir vægar en þeir sem hafa lágar tekjur. Gleggst merki þess eru hvernig skattleysismörk hafa verið fryst, sem í reynd greiddi síðustu tekjuskattsbreytinguna árið 1997 til þeirra sem betur höfðu það. Lífeyrisþegar sem engan skatt greiddu af lífeyri og fullri tekjutryggingu árið 1995 eru nú farnir að greiða 70 þús. kr. í skatt á ári, sem samsvarar mánaðarlífeyrisgreiðslum þeirra. Það skýrist fyrst og fremst af því að skattleysismörkin hafa að mestu verið fryst en ekki af hækkun lífeyrisgreiðslna sem ekki hafa fylgt launavísitölu og oft ekki neysluvísitölu.

Ég hvet til þess að gengið verði alla leið og núna, þegar búið er núna að afnema skatt af húsaleigubótum, þá verði skattur á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga líka felldur niður. Það er fáránleg skattlagning. Ég spyr hæstv. fjmrh. um skoðun hans á því.

Sömuleiðis verður að skoða hvort hið skattalega svigrúm sem ríkisstjórnin telur að nú sé fyrir hendi nýtist betur skuldsettu fólki með miðlungstekjur, ekki síst barnafólki. Ég hvet til þess, herra forseti, að það verði skoðað sem rætt var um á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga, sem stjórnarflokkarnir í raun felldu, að ótekjutengdi hluti barnabótanna nái til barna að 16 ára að aldri en ekki einungis til barna að sjö ára aldri. Þetta eru aðgerðir sem nýtast miklu frekar fólki með meðaltekjur og barnafjölskyldum, þær leiðir sem ég hef nefnt.

Ákveðin rök eru fyrir að skoða lækkun eignarskatta, ekki síst vegna eldra fólks sem býr í stærri skuldlausum eignum en hefur litlar tekjur. Ég spyr ráðherra hvort útreikningar liggi fyrir um samsetningu eigna og tekna hjá þeim sem greiða eignarskatta. Í þeim skattalagabreytingum sem hér er rætt um er ekki síst um að ræða rýmri tekjumörk í hátekjuskatti. Þetta er spurning um forgang og hvort og hvernig þessar breytingar skila sér til fólks með lágar og miðlungstekjur. Hátekjuskattur á einstaklingsárstekjur um 3,4 millj. kr. getur vissulega verið skattur á fólk með meðaltekjur, sem tímabundið hefur yfirvinnu vegna húsnæðiskaupa og þess háttar og hefur því slíkar tekjur. Aftur á móti er ekki hægt að tala um að heimilitekjur upp á tæpar 7 millj. í árstekjur hjá hjónum séu einhverjar miðlungstekjur, enda hefur ASÍ sýnt fram á að þessar tekjur, sem hátekjuskatturinn er miðað við, er langt yfir meðaltekjum á sl. ári og árinu þar áður. Það þarf því að skoða vandlega hvort of langt sé gengið í þessu efni, bæði að því er varðar eignarskattsbreytinguna og hátekjuskattinn. Umfram allt þarf að skoða hvort ekki sé gengið allt of langt í að lækka tekjuskatt á fyrirtæki.

Ég segi fyrir mitt leyti, herra forseti, að ef frv. kemur óbreytt úr efh.- og viðskn. þá finnst mér ekki koma til greina að styðja þennan hátekjuskatt. Ef við höfum ekki svigrúm til þess að gera betur en gert er í þessu frv. fyrir fólk með lágar tekjur og meðaltekjur, mun ég ekki styðja þennan hátekjuskatt. Að óbreyttu mun ég ekki styðja það að frítekjumark hátekjufólks verði aukið.

Ég hvet til þess, herra forseti, og það skulu vera mín lokaorð, að nefndin skoði vel þær hugmyndir sem ASÍ hefur um skattbreytingar, t.d. hugmyndir um neysluskatta til að setja kjarasamningana ekki í uppnám. Það verður ekki litið fram hjá þeim verðbólgu- og verðlagsáhrifum sem þessar skattbreytingar hafa á heimilin í landinu og munu rýra kjör þeirra. Það er óþolandi á sama tíma og dekrið við fyrirtæki og stóreignamenn gengur út í öfgar.