Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:38:08 (307)

2001-10-09 16:38:08# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja það um þennan skattapakka hæstv. ríkisstjórnar að mér finnst hann í raun hafa verið fullkomlega fyrirsjáanlegur. Það er í ekkert í honum í aðalatriðum sem kemur á óvart. Hér er við völd hægri stjórn sem hefur siglt eftir leiðarljósum nýfrjálshyggju í efnahagsmálum, svona í aðalatriðum. Sjálfstfl. hefur verið algerlega ráðandi í þessu samstarfi með sama hætti og hann réð lögum og lofum í samstarfi við Alþfl. á kjörtímabilinu 1991--1995. Þetta ber frekar keim af málamiðlunum, ef einhverjar eru, innan Sjálfstfl. heldur en hinu að Framsfl., sem eins og stundum áður er fjarverandi í salnum að mestu leyti, hafi haft þar einhverja hönd í bagga.

Framsóknarmenn hafa þó hugsanlega átt þátt í því að ríkisstjórnin ákvað af allri rausn sinni, að því er mér skilst á síðustu stigum málsins, að offra heilum 150 millj. kr. í að afnema skattlagningu húsaleigubóta. Þar birtist örlætið. Þar birtist gæska ríkisstjórnarinnar til þeirra sem menn geta væntanlega orðið sammála um að standi frekar höllum fæti í lífsbaráttunni en hitt, lágtekjufólks sem leigir húsnæði. Húsaleigubæturnar eru jú tekjutengdar eins og menn muna. En að öllu öðru leyti eru þessar skattaáherslur ríkisstjórnarinnar klassískar hægri áherslur.

Það var því ekki að undra að hv. þm. Pétur Blöndal kæmi hér eins og frelsaður maður, nýbaðaður maður, og segði bara: Loksins, loksins. Loksins skattalækkun á hátekjufyrirtæki, gróðafyrirtæki og hátekjufólk. Það er auðvitað órækasta sönnun þess að hér er um hægri pakka að ræða hve hv. þm. Pétur Blöndal var yfir sig barnslega glaður í ræðustólnum áðan.

Ég verð líka að segja, herra forseti, að mér blöskrar að heyra talið um hátekjuskattþrepið, þetta væga álag sem er í íslenska tekjuskattskerfinu á hæstu laun. Sjálfstfl. er búinn að finna upp nýtt hugtak, meðaltekjuskatt. Ég heyrði þetta hjá ungliðum Sjálfstfl. í viðtölum þar sem ræddur var aðdragandi landsfundar þeirra og þings þeirra. Þá var þetta hugtak komið í loftið, meðaltekjuskattur og alveg sérstakt hneyksli að skattleggja meðaltekjur. En hvað er þetta í reynd? Þetta er álag á tekjur ofan við frítekjumörkin, vel á fjórða hundrað þús. kr. hjá einstaklingi og vel á sjöunda hundrað þús. kr. hjá hjónum. Það leggst bara á þau laun sem eru þar fyrir ofan. Það eru engar meðaltekjur í þessu landi. Þó menn fari að borga þarna 7% álag á laun sem komin eru upp fyrir þetta. 7% virka ekki niður fyrir þau mörk. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta sé haft á hreinu því að mér virðist þetta stundum misskiljast.

Þegar þetta er sett í samhengi, herra forseti, við skattamálin að öðru leyti, þá staðreynd að íslenski tekjuskatturinn er flatur í einu þrepi að slepptu þessu álagi á hátekjur, ekki þrepaskattur eins og hann er víða í nálægum löndum, þá er auðvitað mikil ósvífni að bera hlutina á borð eins og nú er gert varðandi þetta litla álag sem eftir situr í íslenska tekjuskattskerfinu á hæstu laun. Ég fullyrði það. Það bítur auðvitað höfuðið af skömminni að skattleysismörkin hafa ekki fylgt verðlagi og þaðan af síður launaþróun undanfarin ár. Við þeim er ekki hróflað. Það leiðir til þess, eins og áður hefur komið fram og ég hef dregið athygli að, að menn eru farnir að borga umtalsverða skatta af bótum, af hæstu örorkubótum eða hæstu ellilífeyrisbótum. Lágtekjufólk sem er á launum rétt ofan við þessar bætur, t.d. sjúkraliðar með innan við 90 þús. kr. í byrjunarlaun, borgar umtalsverða skatta. Ef við tökum meðallaun kvennastéttanna í landinu samkvæmt launakönnun kjararannsóknarnefndar þá þykir nú sennilega fæstum að konur, t.d. á landsbyggðinni, í störfum almenns verkafólks eða konur í þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörfum séu ofhaldnar í sínum launum. Þar eru launin innan við 100 þús. kr. á mánuði að meðaltali á allri landsbyggðinni í seinna tilvikinu en þær eru taldar borgunarmenn fyrir 12--15 þús. kr. sköttum af þeim launum. Það er ekki ein einasta tillaga um að gera ráðstafanir gagnvart skattbyrði þeirra en hátekjuskattinn, álagið á hæstu launin á að lækka. Það er dálítið skondið, herra forseti, að þessi hækkun hátekjumarksins í frítekjuskattinum lyftir þessu gagnvart einstaklingum rétt upp fyrir hið fræga þingfararkaup. Það er stundum rætt um að laun þingmanna séu góð. Sýnist sitt hverjum um það að vísu. En það er þó þannig --- það er ágætt að þjóðin hafi það til hliðsjónar --- að við náum ekki í þennan hátekjuskatt með þingfararkaupi okkar. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því. Það er ekki fyrr en menn eru komnir á talsvert hærri laun en þingmenn hafa sem menn byrja að borga þetta 7% álag á launin, þar fyrir ofan. Ég hafna því þessari nálgun, herra forseti, og lýsi mikilli andstyggð minni á því að menn reyni að læða því inn hjá fólki --- ég tel það ómálefnalegt --- að hér sé um einhvern ósanngjarnan millitekju- eða meðaltekjuskatt að ræða. Þannig er það ekki. Þetta er eingöngu á þann hluta launanna sem liggur ofan við allar meðaltekjur í landinu, hvort sem við miðum við einstaklinga eða hjónafólk.

Þegar við tökum atvinnulífið, herra forseti, þá verð ég líka að segja að ég hef miklar efasemdir um þá útfærslu sem hér er valin. Ég tel þarna farið vitlaust í að laga starfsumhverfi atvinnulífsins, jafnvel þó menn telji sig hafa efni á því að slaka þar út nokkrum tekjum. Það er að vísu ekki mikið sem á að koma nettó í hlut atvinnulífsins vegna þess að tryggingagjaldið á að hækka á móti. En ég held að það sé ekki það brýnasta, ef menn ætla að taka til í starfsskilyrðum atvinnulífsins, að stórlækka tekjuskattinn á þeim fyrirtækjum sem þó eru að hagnast. Athugum hvaða fyrirtæki það eru. Það eru fyrst og fremst fyrirtæki í fjármálageiranum, fyrirtæki sem eru í klassískri fákeppnisstöðu á markaði og hafa meira og minna geta skammtað sér gróða svo ríflegan gegnum tíðina að þau hafa fullnýtt alla frádráttarmöguleika og borga þar af leiðandi tekjuskatt. Vorkennum við þeim sérstaklega? Ég geri það ekki.

Ég held að það væri brýnna að skoða starfsskilyrði nýsköpunar og þróunar í atvinnulífinu og skoða þær greinar sem sannanlega búa við erfiða afkomu. Þar má nefna ferðaþjónustuna sem dæmi, mestu vaxtargrein íslensks atvinnulífs sl. ár, sem hefur aukið gjaldeyristekjur þjóðarbúsins hlutfallslega meira en nokkur önnur á undanförnum árum --- er númer tvö í dag á eftir sjávarútveginum --- en býr við þá stöðu að afkoman er mjög erfið, nýtingartími fjárfestinga stuttur og launakostnaður hlutfallslega hár. Það er alveg ljóst að í ferðaþjónustunni, bæði í gistingu og í margs konar afþreyingu sem hún byggir á, er launaliðurinn mjög hátt hlutfall.

[16:45]

Þessar breytingar verka þar af leiðandi mjög íþyngjandi á svo til öll ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Ég þekki fá þeirra, því miður, sem hafa gert upp með miklum hagnaði undanfarin ár. Í sjávarútveginum er tekjuskattur því miður afar sjaldséð fyrirbæri og af hverju er það? Það er af því að afkoman hefur verið mjög sveiflukennd. Það eru miklar fjárfestingar í greininni. Það eru því þungar afskriftir þar og síðast en ekki síst hafa menn mjög víða verið að nýta sér töp frá umliðnum árum og í gegnum sameiningu fyrirtækja þannig að tekjuskattur er þar ekki fyrirferðarmikill. En þetta mun bitna þungt á þeim greinum sjávarútvegsins þar sem launaliðurinn vegur enn þá að einhverju ráði, þeim hlutum fiskvinnslunnar þar sem launin skipta máli. Dæmi: Lítil sérhæfð vinnslufyrirtæki þar sem mikið er byggt á handverki, þar sem ekki er um mjög vélvædda vinnslu að ræða og þar sem launaliðurinn er hlutfallslega stór. Virðisaukinn í frekari vinnslu ferskfisks í landi er einmitt þessu marki brenndur. Útflutningur á flökum, í flug o.s.frv., bitnar greinilega þungt á þeim greinum. Og þá kemst ég að þeirri niðurstöðu, herra forseti -- það er kannski engin óskapleg speki og það hafa allir rétt til sinna skoðana í þessu efni -- en ég bið menn að mæta því með rökum hvort ekki sé ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að þetta komi svona niður. Og það er hárrétt sem menn hafa hér sagt, margir á undan mér í umræðunni, að það er líka veruleg ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að þetta komi þyngra niður á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Það liggur í hlutarins eðli í raun og veru og við þekkjum það, því miður, að afkoma fyrirtækjanna er að meðaltali erfiðari á landsbyggðinni. Þau borga sjaldnar tekjuskatt. Höfuðstöðvar stóru fyrirtækjanna sem frekar eru að hagnast eru hér. Vinnuaflsfreku greinarnar í frumvinnslu sjávarafurða og landbúnaði eru úti á landi. Ferðaþjónustan hefur verið að eflast á landsbyggðinni. Allt ber þar að sama brunni.

Ég er ekki að segja, herra forseti, að þetta séu kannski gríðarlega stór mál. Hér er ekki verið að færa til fjármuni þannig að maður hafi ekki séð annað eins. Það er auðvitað bull og vitleysa að þetta sé einhver sögulegur pakki hvað stærðina snertir, mældur í nokkrum milljörðum. Það er ekki þannig. Það er alveg augljóst að sviptingar í skattamálum fyrirtækja og einstaklinga hafa áður verið meiri. Það er fyrst og fremst gort í hæstv. ráðherrum þegar þeir vilja komast á spjöld sögunnar fyrir þennan pakka, og það er ekkert að marka þó að þetta frv. sé dálítið þykkt. Það er ekki víst að efnisleg verkan þess sé í samræmi við það.

Mér finnst hafa meira gildi að átta sig á pólitísku skírskotuninni sem í þessu er fólgin og hvað menn eru að fara, að svo miklu leyti sem maður gefur sér að menn geri það með fullri meðvitund, og þá undrast ég, herra forseti, þessar áherslur. Ég tel ekki skynsamlegt að fara svona langt niður með tekjuskattinn, og hef raunar alla fyrirvara á því að vera nokkuð að lækka hann. Hann er hér enn neðan við meðaltal OECD. 30% eftir á greiddur tekjuskattur lögaðila í 8% verðbólgu er sannanlega ekki mjög hár. Það er bara staðreynd. 18% eru náttúrlega komin þarna mjög neðarlega, og þá erum við sennilega komin í næstneðsta sætið á eftir Írlandi af öllum löndum.

Svo er sagt hér, og það er ágætt að það er viðurkennt í grg. með frv., sem ég hef oft minnt á þegar menn tala um skattbyrðar atvinnulífsins, að launatengdur kostnaður atvinnulífsins á Íslandi er með því lægsta sem þekkist jafnvel þó að lífeyrisskuldbindingar og greiðslur í lífeyrissjóði séu teknar með. Það held ég að hafi verið styrkur fyrir íslenskt atvinnulíf en ekki öfugt. Þegar við berum saman og skoðum heildarskattbyrði fyrirtækjanna má ekki bara einblína á tekjuskattinn. Við skulum líka taka launatengda kostnaðinn. Hann er lágur hér og það stendur nákvæmlega efst á bls. 14 í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Einnig er rétt að hafa í huga að tryggingagjöld hér á landi eru tiltölulega lág miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum jafnvel þótt tekið sé tillit til lífeyrisiðgjalda.``

Hver er þá lærdómurinn af þessu tvennu, herra forseti? Það eru ekki nein efnisleg rök til að halda því fram að skattbyrði á atvinnulífið sé þung á Íslandi. Þvert á móti er hún létt og það furðulega er, þegar að er gáð, að á öllum Norðurlöndunum er skattbyrðin á atvinnulífið frekar létt. Norðurlöndin skera sig þannig úr að þar eru háir óbeinir skattar, og það eru háir tekjuskattar annars staðar en á Íslandi, alveg upp í 50--55%, 60% í Svíþjóð. Þess vegna verður ekki sagt að það sé skattaumhverfið sem sé að hrekja atvinnulíf burt frá Norðurlöndunum og eitthvað annað enda er það í raun og veru ekki svo. Það eru bara alls ekki borðfastar staðreyndir að hér sé brostinn á einhver almennur flótti atvinnulífs úr landinu, fyrirtækja úr landinu. Og hvert ættu þau að flytja? Eiga þau að flytja til Þýskalands þar sem skattbyrði atvinnulífsins er miklu hærri, m.a. í gegnum mjög háan launatengdan kostnað þar sem tryggingakerfið hvílir í raun og veru að miklu leyti á herðum fyrirtækjanna en ekki á almennum skattgreiðendum. Það eru aðrir hlutir sem ráða því fyrst og fremst hvar fyrirtækin setja sig niður. Ég fullyrði það. Það er fyrirsláttur þegar menn eru að tala um að það sé hið skattalega umhverfi sem hafi þarna einhver áhrif. Ég hef talað við marga forsvarsmenn fyrirtækja og þegar ég spyr þá hvers vegna þeir setji þessa starfsemi þarna en hina hér, af hverju þessi framleiðsla sé í Danmörku eða af hverju þessi fiskréttaverksmiðja sé í Frakklandi, hafa ástæðurnar aldrei verið skattaleg skilyrði. Þær eru nálægðin við markaðinn og þær eru þá frekar tollar eða viðskiptakjör að því leyti en ekki skattar. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt menn bera það fram sem ástæðu að þeir væru að forða sér frá Íslandi vegna óhagstæðra skatta. Ég fullyrði að það er fyrirsláttur sem hér er uppi hafður í þeim efnum.

Herra forseti. Fleira í þessum dúr mætti svo sannarlega ræða, t.d. spurninguna um eignarskattana og hvort það sé svo, eins og hv. þm. Pétur Blöndal fagnaði náttúrlega grátklökkur af gleði, að þeir væru að lækka. En hvernig er þetta með eignarskatta einstaklinga? Er ekki frítekjumarkið gagnvart þeim þannig að það þarf að vera um að ræða hreina eign manna að frádregnum skuldum upp á einar 5 millj. eða hvað það er í augnablikinu fyrir einstakling og 10 millj. fyrir hjón eða svo? Það er ekki eins og um mikla skattbyrði sé að ræða á þessi fáu prómill sem þarna eru á ferðinni. Það geta líka verið ákveðin efnisleg rök fyrir því að menn leggi eitthvað til samfélagsins vegna eigna sinna sem þeir hafa ákveðin réttindi út á og samfélagið hefur líka gert mönnum kleift að mynda og hefur í sumum tilvikum ákveðinn kostnað af, fleiri en bara sveitarfélög. Mér finnast menn vera fljótir að gleyma þessu öllu saman þegar þeim hentar það.

Ég spyr, herra forseti: Hvernig á að fjármagna endurreisn menningarbygginga ef þjóðarbókhlöðuskatturinn verður lagður niður? Auðvitað ætti ekki að kalla hann því nafni lengur því að hann er löngu hættur að renna til Þjóðarbókhlöðunnar. Undanfarin ár hefur hann gengið til þess að koma nokkrum af verðmætustu menningarhúsum landsins í stand sem voru meira og minna að grotna niður og fúna og hrynja hvert á fætur öðru. Hvernig ætla menn þá að leysa úr þeirri þörf? Gæti hæstv. fjmrh. gæti svarað því eða þá hæstv. menntmrh. því að ég hef ekki heyrt múkk frá honum um hvað eigi þá að koma þarna í staðinn. Byrjar þá ekki sami barningurinn og sama sveltið sem veldur því að menningarverðmætin í landinu verða fyrir áföllum á nýjan leik? Það hefur þó miðað talsvert í þá átt og mörg menningarlega og byggingarsögulega merk hús hafa fengið uppreisn æru núna á síðustu árum. Manni hefur vissulega stundum brugðið í brún yfir kostnaðartölunum en annaðhvort höfum við Bessastaði, Stjórnarráðið, ráðherrabústaðinn og hvað þetta nú er, í nokkurn veginn fokheldu standi eða við bara ættum að rífa þessi hús. Það hefur þó tekist í gegnum þennan tekjustofn að hafa þau nokkurn veginn í lagi. Þannig að ég spyr: Hvaðan eiga þá fjármunir að koma í það á komandi árum ef þessi tekjustofn verður sleginn af? Ég held að þrátt fyrir allt hafi ekki verið nein teljandi óeining um hann en mér er að vísu vel kunnugt um það að Sjálfstfl. hefur haft þetta mál sem eitt af sínum heilögu málum. Það hefur nýst honum mjög vel að geta ályktað um þetta á eiginlega hverjum einasta fundi rétt eins og Rás 2 er búin að vera eitthvert vinsælasta ályktunarefni á öllum fundum ungra sjálfstæðismanna, að hana skuli selja eða einkavæða. Þess vegna held ég að það sé óráð hjá Sjálfstfl. að afsala sér þessum ágætu og vinsælu umfjöllunarefnum á landsfundum sínum. Um hvað ætlar aumingja Sjálfstfl. að álykta þegar þjóðarbókhlöðuskatturinn verður afnuminn og ég tala nú ekki um ef Rás 2 yrði slegin af? Ég held að það sé bara misskilningur hjá þeim að standa svona að málum.

Herra forseti. Að síðustu verður svo ekki of oft á það minnt að þessi mál eru ekkert óskaplega flókin þegar til kastanna kemur. Við borgum samneysluna fyrir tekjur ríkissjóðs. Við stöndum undir velferðarkerfinu og opinberum framkvæmdum. Ef menn skerða þessar tekjur, draga úr og veikja tekjugrunn ríkissjóðs og samneyslunnar í landinu kemur það fram, annaðhvort í niðurskurði þessarar þjónustu eða hallarekstri ríkissjóðs. Þriðji kosturinn er svo sá, sem maður sér auðvitað glitta hér í líka, að notendurnir verði í vaxandi mæli enn frekar en orðið er látnir borga fyrir þjónustuna og menn eiga að vera heiðarlegir í þessum efnum. Menn eiga að svara því hreint út hvar þeir ætla þá að bera niður ef þeir ætla að minnka tekjur ríkis og sveitarfélaga sem hafa fram að þessu staðið undir samneyslunni. Og það eru engin svör að vísa til tímabundinna tekna af sölu ríkiseigna því að sú lind þornar upp og það á undraverðum hraða ef svo heldur sem horfir. Þessi ríkisstjórn er langt komin með að afhenda allar verðmætustu sameignir þjóðarinnar og hvað ætlar hún þá að selja á næsta kjörtímabili? Hún er búin með nokkurn veginn allt á þessu. Hvernig á þá að brúa bilið ef menn hafa samtímis veikt tekjugrundvöll ríkissjóðs og samneyslunnar? Ég hef vissulega tekið eftir því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. hefur í raun verið í hópi þeirra varkárari úr röðum stjórnarliða þegar þessi mál ber á góma. En hann er sá sem ber þessi mál fram hér og verður að svara fyrir pólitík ríkisstjórnarinnar í þessum efnum hvort sem honum er það ljúft eða leitt.