Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 17:18:43 (312)

2001-10-09 17:18:43# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Svo er stundum með hv. þm. að hann virðist oft gera ráð fyrir því að megnið í okkar fyrirtækjum sé línulegt og að hægt sé að reikna ýmsa hluti áfram eftir línunni. Málið er þó það að við hrærumst í mannlegu samfélagi sem lýtur ekki endilega beinum lögmálum stærðfræðinnar heldur kemur ýmislegt fleira við sögu. Þess vegna er ekki hægt að gefa sér að hægt sé bara að lækka áfram skatta og lækka og það auki stöðugt tekjur í ríkissjóð. Það er að sjálfsögðu ekki hægt því, eins og ég segi, koma miklu fleiri þættir þar við sögu.

Hv. þm. er afar mikið að velta fyrir sér hvernig megi lækka skatta á fyrirtækjum með það að markmiði, að hans mati, að bæta þau og efla og styrkja en segir þó, eins og áðan, að auðvitað megi ekki ganga svo langt fram að við veikjum stoðir velferðarkerfisins. Þetta er býsna ánægjulegt. En það getur vel verið að við séum ekki endilega sammála um hvenær stoðir velferðarkerfisins fara að veikjast. Ég held því t.d. fram að við séum að ganga á ýmsan hátt heldur langt í því að tryggja velferðina og við þurfum verulega að varast það. En ég er algerlega klár á því að við verðum að tryggja það að hjól atvinnulífsins snúist vegna þess að öðruvísi getum við aldrei byggt upp velferðina. Ég tel að velferðin og menntakerfið eigi að hafa forgang. Ég sakna þess mjög, eins og hefur komið fram hjá mér áður úr þessum ræðustól, varðandi fjárlög ríkisins fyrir næsta ár að þar sé forgangsraðað miðað við að menn hafi sett sér það mark að tryggja velferðina áfram og efla menntunina. Það hlýtur að vera okkar markmið til framtíðarinnar og ef við náum saman um það að halda atvinnulífinu þannig að það geti skapað auknar tekjur í ríkissjóð til þess að tryggja þetta þá höfum við náð langt.