Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 17:50:14 (316)

2001-10-09 17:50:14# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[17:50]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller spyr mig hvort ég eða öllu heldur Framsfl. geti hugsað sér að fyrirtæki njóti sérstakra skattahlunninda úti á landsbyggðinni. Hv. þm. talar um að framsóknarmenn hafi verið með slíkar tillögur. Það þarf ekki að horfa lengra aftur í tímann heldur en bara til síðasta kjörtímabils. Ákveðnir þingmenn Framsfl. hafa verið með tillögur um að fólk úti á landsbyggðinni og fyrirtæki nytu skattahlunninda þannig að hv. þm. þarf ekki að fara mjög langt aftur í tímann.

Hins vegar er alveg ljóst að það er ákaflega erfitt að finna viðunandi viðmið í þessum efnum. Hvar eigum við t.d. að draga mörkin á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, hvar á sú lína að vera? Hvernig er með vaxtarsvæðin úti á landsbyggðinni þar sem í raun og veru er bullandi vöxtur o.s.frv.? Þetta eru flókin mál og ég get auðvitað ekki svarað fyrir flokkinn í heild sinni en mér finnst að þetta komi alveg til greina.