Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 17:51:44 (317)

2001-10-09 17:51:44# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. finnist koma til greina að nota skattkerfið til jákvæðrar mismununar milli höfuðborgar og landsbyggðar. Ég er þeirrar skoðunar og hef oft tekið sem dæmi hvernig tryggingagjaldi í Noregi hefur verið breytt. En það er nú þannig í þessum skattatillögum sem hér liggja fyrir, m.a. í flutningi Framsfl. sem annars aðilans að ríkisstjórn, að þar er verið að hækka tryggingagjaldið sem mun leggjast sérstaklega af fullum þunga á fyrirtæki úti á landsbyggðinni vegna þess að mjög mörg fyrirtæki á landsbyggðinni borga hvorki skatt né eignarskatt. Ávinningurinn af þessum skattkerfisbreytingum kemur þannig fyrirtækjunum ekki til góða. Mér finnst vera dálítið bil á milli þeirra skoðana sem hv. þm. var að lýsa og tillagnanna sem hér liggja frammi og Framsfl. er aðili að.

Ég vildi vekja athygli á þessu, herra forseti, nú við þessa umræðu, vegna þess að mér finnst stundum að athafnir hv. framsóknarmanna fari ekki endilega saman við það sem þeir eru að tala um nema þá að það sé þannig, eins og við höfum oft haft á tilfinningunni, að Framsfl. sé hálfgert varadekk í þessari ríkisstjórn og Sjálfstfl. stjórni þessu alfarið vegna þess að á vegum Sjálfstfl. hefur ekki verið ljáð máls á að beita skattkerfinu til þeirrar jöfnunar sem ég hef verið að gera að umtalsefni.

Ég ítreka það og segi aftur: Þungaskatturinn sem leggst mjög illa á flutning á aðföngum til fyrirtækjareksturs á landinu hefur stórhækkað. Hann hefur stórhækkað í ríkisstjórnartíð Sjálfstfl. og Framsfl. Um það höfum við áður rætt. Þar af leiðandi hefur hann hækkað vöruverð og gert fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni erfiðari.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég er sammála skattkerfisbreytingum sem verða til þess að fyrirtæki flytja til landsins. Ég hefði viljað sjá í þessum tillögum líka jákvæða mismunun til þess að jafna fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu.