Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:30:49 (322)

2001-10-09 18:30:49# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:30]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ef menn eru að vitna hér einn áratug aftur í tímann, þá munum við það sem þá vorum á þingi að við vorum að ganga inn í gríðarlega erfiðleika. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem tók við 1991, tók náttúrlega við alveg hörmulegu búi. Hér var allt á heljarþröminni. Atvinnulífið var allt í kaldakoli. Stofnaðir höfðu verið alls konar óráðsíusjóðir til að bjarga þessu fyrir horn. Ríkisstjórnin varð að byrja á því að setja milljarða í að kála þessum sjóðum. Ég minni á að á þessum tíma spáði Alþýðusamband Íslands 20% atvinnuleysi. Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að grípa til gríðarlega erfiðra aðgerða sem komu mjög við landsmenn til að ná þjóðarskútunni á réttan kjöl. En ríkisstjórnin sagði alltaf, forsrh. sagði alltaf: Þegar við erum komin á lygnan sjó munum við láta landsmenn njóta þess. Og það er það sem við höfum verið að gera á undanförnum árum. Við höfum verið að rétta kúrsinn, við höfum verið að lækka skattana og gera eitt og annað fyrir fólkið í landinu af því að nú gengur vel. Við höfum náð tökum á efnahagsmálunum. Við höfum verið að greiða niður skuldir ríkisins. Og við erum að lækka skattana, í ótal liðum eins og ég nefndi áðan.

Þó að menn vitni eitthvað aftur í fortíðina, tíu ár aftur í tímann þegar allt var hér í kaldakoli, þá er það bara ekkert sambærilegt. Vegna þess að nú höfum við náð tökum á þessum málum og við erum að skila þjóðinni því sem hún lagði á sig á erfiðleikaárunum í upphafi síðasta áratugar.

Að skattalækkanirnar gangi til fyrirtækja, ég er nú ekki með tölurnar fyrir framan mig, það er einfaldlega ekki rétt að þær gangi nánast að öllu leyti til fyrirtækjanna í landinu. Ég minni á stórlækkun á eignarskattinum sem gagnast auðvitað almenningi. Ég minni á lækkun á svoköllum hátekjuskatti sem er skattur sem leggst á stóran hluta af hinum almennu launamönnum í landinu og fleira og fleira sem ég taldi upp í ræðu minni áðan. Það er því einfaldlega rangt þegar hv. þm. gefur það í skyn að almenningur í landinu njóti ekki þessara skattalækkana.