Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:34:21 (324)

2001-10-09 18:34:21# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt að skattprósentan sé svipuð og hún var fyrir tíu árum. Þar að auki vil ég bæta því við að þegar ríkisstjórnin lækkaði tekjuskattinn á einhverju stigi fyrir nokkrum árum, þá hlupu sveitarfélögin til með Reykjavíkurborg í broddi fylkingar og hirtu skattalækkunina okkar í hækkun á útsvari og ekki var þá við ríkisstjórnina að sakast.

Og að ekki sé verið að létta neinu af láglaunafólki. Hverjir njóta húsaleigubóta? Er það ekki láglaunafólkið í landinu? Eru það burgeisarnir og stórfyrirtækin? Ég hélt ekki.

Það er auðvitað eðlilegt að vinstri menn gagnrýni þessar skattalækkanir. Það er ósköp eðlilegt. Við höfum einfaldlega gjörólíkar áherslur í skattamálum, Sjálfstfl. og vinstri flokkarnir. Við viljum lækka skatta og við viljum að þjóðin njóti sín og menn hafi ánægju af því að starfa og eigi eitthvað eftir, geti eignast eitthvað. Vinstri menn sjá aldrei önnur ráð en að hækka skatta eins og dæmin sanna við síðustu fjárlagagerð þegar Samfylkingin lagði til skattahækkanir upp á 5,5 milljarða og Vinstri grænir líka.