Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:47:04 (331)

2001-10-09 18:47:04# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki þá miðstýringu eða ríkisforsjá eins og hv. þm. var hér með að Alþingi færi að búa til störf.

En það sem Alþingi ber að gera er að skapa þá umgjörð um atvinnulífið að það geti dafnað og blómstrað. Vinstri grænir hafa ekki verið við stjórn sl. fimm ár en vonandi kemur að því hið fyrsta að við komumst í stjórn.

En ég spyr ítrekað, herra forseti, hverju ætlar hv. þm. að svara íbúum á Norðurl. v., á Vestfjörðum og jafnvel á Vesturlandi eða hluta Vesturlands, sem ekki munu njóta stóriðjudraumanna sem hv. þm. er að veifa? Hverju ætlar hann að svara því þegar þau koma með þetta ákall, að þau óski eftir því að það verði kannað hvort hægt sé að hafa áhrif á það í gegnum skatta að jafna skilyrði fólks til búsetu og fyrirtækjanna til rekstrar?