Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:50:12 (333)

2001-10-09 18:50:12# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:50]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er margt öfugsnúið í pólitíkinni. Hér höfum við í dag hlýtt á talsmenn Sjálfstfl., hægri menn, tala fyrir ríkisforsjá. Þeir guma af því að vilja skapa 1.000 störf á Austurlandi með málmbræðslu og stórvirkjunum sem koma til með að kosta um 300 milljarða kr. Á sama tíma er þessi flokkur að tala fyrir skattalækkunum og skattkerfisbreytingum sem sannanlega munu leiða til þess að stoð- og stuðningskerfi fyrir atvinnulíf í landinu verður veikt. Það er að gerast og það hefur verið að gerast. Menn hafa verið að loka pósthúsum. Menn eru að loka útibúum bankanna og margvíslegri þjónustustarfsemi við fyrirtæki og heimili í landinu. Og menn ætla að ganga lengra.

Hér talaði einn helsti efnahagstalsmaður Sjálfstfl. í dag, Pétur H. Blöndal, og kvað ríkisstjórnina ekki ganga nægilega langt í því að skera niður skatta á fyrirtæki í landinu. Sú mynd sem blasir við landsmönnum ef þessir frjálshyggjudraumar eða -draumórar verða að veruleika er sú að landsmenn verða látnir greiða fyrir þá þjónustu sem þeir njóta: í skólum, á sjúkrahúsum, á elliheimilum, við innganginn, í afgreiðslunni, vegna þess að þetta verður innheimt með sjúklingasköttum og skólagjöldum. Við erum að verða vitni að fyrstu slíku ráðstöfununum í fjárlagafrv. sem kynnt var hér fyrir fáeinum dögum þar sem skólagjöld í Háskóla Íslands eru hækkuð um 40%. Þetta er pólitíkin sem liggur að baki. Þetta er sú pólitík sem við erum að ræða hér.

Í rauninni er það mjög heiðarlegt af fulltrúum Sjálfstfl. að koma eins grímulaust til dyranna og þeir hafa gert í umræðunni hér í dag.

Þessar skattkerfisbreytingar sem hér eru til umræðu snúast fyrst og fremst um lækkun á fyrirtækjasköttum, í fyrsta og öðru lagi lækkun á tekjusköttum þeirra einstaklinga sem búa við meðaltekjur og háar tekjur.

Það eru þessir þættir í skattafrv. sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum helst gagnrýnt. Við höfum tekið undir aðra þætti. Við höfum tekið undir að byrðum skuli létt af leigjendum húsnæðis. Það er löngu tímabær breyting. Það er mikilvægt að þeir búi ekki við lakari kjör en fólk sem er að eignast húsnæði.

Það er sitthvað annað í þessum skattbreytingum sem við höfum einnig tekið undir, t.d. að skattar á íbúðarhúsnæði skuli léttir o.s.frv.

En þegar á heildina er litið höfum við gagnrýnt þessar breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Annars erum við að gera athugasemdir við það að ráðist skuli í þær skattbreytingar yfirleitt.

Í annan stað höfum við gagnrýnt þá aðferðafræði sem beitt er, að við þær aðstæður sem nú blasa við í þjóðfélaginu, samdrátt og erfiðleika hjá fjölda fyrirtækja, skuli tekjuskattur fyrirtækja lækkaður en á sama tíma er tryggingagjaldið hækkað. Tryggingagjaldið þurfa öll fyrirtæki að borga, óháð hvernig tekjum þeirra er háttað, einnig þau fyrirtæki sem nú berjast í bökkum. Tryggingagjaldið er orðið æðihátt og fer með fyrirhuguðum breytingum sem hér liggja á borðinu upp í 6%. Það er þetta sem við höfum fyrst og fremst verið að gagnrýna enda teljum við að áherslur hefðu átt að vera aðrar við núverandi aðstæður.

Varðandi aðra þætti þessarar umræðu fagna ég því hve heiðarlega Framsfl. kom fram við þessa umræðu þótt málflutningurinn hafi að sönnu komið mér nokkuð á óvart. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sagði að stjórnarflokkarnir stæðu einhuga að baki þessum breytingum. Og hann sagði að þessar breytingar hefðu vakið mikinn fögnuð í þjóðfélaginu. Hvert er þjóðfélag hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar? Það var verðbréfamarkaðurinn sem fagnaði. Verðbréfamarkaðurinn fagnaði. Verslunarráðið fagnaði. Samtök atvinnulífsins fögnuðu.

En hv. þm. hlustaði ekki á aðrar raddir, þær sem komu frá verkalýðshreyfingu, sem komu frá Öryrkjabandalaginu sem furðaði sig á því að á sama tíma og skattívilnanir væru færðar hátekjufólki skyldi hátekjuskattsviðmið fært úr 275 þús. kr. í 331 þús. kr. Á sama tíma og þetta er gert er hvergi hreyft við skattleysismörkunum sem á undanförnum árum hafa verið að dragast aftur úr almennri launaþróun.

Hv. þm., talsmaður Framsfl., sagði að þetta væri ekki svo ýkja slæmt og minnti okkur á, sem er alveg rétt, að hækkun skattleysismarka er dýr. Það er dýr ráðstöfun. Hverjar þúsund krónur, hélt hann fram, kosta einn milljarð. Þetta er dýrt. Engu að síður er þetta ráðstöfun sem kemur lágtekjufólki, öryrkjum og öðrum sem búa við kröpp kjör, að miklu gagni. Og þau gagnast einnig atvinnulífinu vegna þess að þetta fyrirkomulag er einnig stuðningur við atvinnufyrirtækin í landinu.

Ég ræddi ekki alls fyrir löngu við danskan mann. Hann kvað þá leið sem Íslendingar færu til að styrkja fyrirtækin, að hafa skattleysismörk þetta lág, mjög skynsamlega. Og hann sagði að þetta fyrirkomulag væri án efa til þess að sporna við þeirri þróun sem þeir hefðu orðið varir við, Danir, á liðnum árum og áratugum, að fyrirtæki, agnarsmá fyrirtæki með slakan fjárhag, reyndu að fara yfir í svarta atvinnustarfsemi. Hann sagði að þessi ráðstöfun væri skynsamleg, að við værum að gera skynsamlega hluti með þessum stuðningi við atvinnulífið, við fyrirtækin í landinu.

Það er þannig ekki rétt að þetta sé einvörðungu stuðningur við lágtekjufólkið, og réttlátt í þeim skilningi, heldur er þetta einnig stuðningur við atvinnulífið í landinu. Það er hægt að styðja við fyrirtækin á annan hátt en þann sem ríkisstjórnin ætlar að fara, að lækka tekjuskatta á fyrirtæki.

Enn vil ég benda á það að millifærslukerfið, hvort sem er í sköttum eða í velferðarþjónustunni, kemur að sjálfsögðu atvinnulífinu einnig til góða. Í stað þess að fyrirtæki greiði laun miðað við þær aðstæður að í hverri fjölskyldu þurfi að sjá sjúkri manneskju farborða, vera með börn á framfæri og vera að byggja allt lífið, hefur þjóðfélagið komið því þannig fyrir að við færum fjármunina til, komum hinum sjúku til aðstoðar, þeim sem eru með börn á framfæri, þeim sem eru að reisa sér hús eða íbúð eða eru að fara út á leigumarkaðinn. Samfélagið hefur komið sér upp þessu millifærslukerfi út frá hagræðingar/skynsemissjónarmiðum. Og þær breytingar sem ríkisstjórnin er að leggja til eru að sumu leyti tilræði við þetta hagræðingarkerfi.

Þetta er sú gagnrýni, herra forseti, sem við höfum sett fram við þessar skattkerfisbreytingar. Ég tek það fram að það er sitthvað í þessum breytingum sem við tökum að sjálfsögðu undir og skrifum upp á. En þegar á heildina er litið viljum við fjármagna velferðarþjónustuna og þetta millifærslukerfi með sköttum en ekki þjónustugjöldum vegna þess að við teljum það hagkvæmara, skynsamlegra og réttlátara.