Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 19:16:43 (336)

2001-10-09 19:16:43# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[19:16]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf mér við lok umræðunnar og undirtektir hans varðandi málflutning minn að mörgu leyti. Hreinskilni hæstv. ráðherra er einnig þakkarverð í sambandi við erfðafjárskattinn og stimpilgjaldið, að engu verði lofað um breytingar á þessu þingi þrátt fyrir að verið sé að vinna að sérstakri endurskoðun á erfðafjárskattinum. Það hefur ekki komið fram opinberlega áður, að ég held, en varðandi stimpilgjaldið hefur það auðvitað komið fram að einhver bið muni verða á að það taki gildi. Einnig er rétt að þakka hæstv. ráðherra þá leiðréttingu sem hann bætti við sem var tímabær en er villandi á bls. 12 í frv.

Herra forseti. Að lokum er rétt að ítreka að umræðan hefur um margt verið fróðleg og varpað ljósi á að margt bíður í efh.- og viðskn. Ég fagna einnig þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að þau orð hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn., sem hann lét falla í viðtali við DV í dag, túlkun okkar margra á þeim orðum var nokkuð önnur en hjá hæstv. ráðherra en ég vona að hæstv. ráðherra þekki hv. þm. betur en við mörg í salnum og treysti því og trúi að hæstv. ráðherra fari þar rétt með og túlkun hans sé rétt á þeim orðum og því muni ekki standa á því að skoðaðar verði þær breytingar sem menn telja vera til bóta í máli þessu.