Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:47:16 (342)

2001-10-10 13:47:16# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í dag hafa 49 fyrirtæki starfsleyfi á sviði fjarskipta á Íslandi. Það ríkir með öðrum orðum bullandi samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að ríkið dragi sig út úr rekstrarumhverfinu. Ákvörðun um það liggur fyrir. Alþingi hefur lýst vilja sínum til þess. Í kjölfarið hefur einnig markvisst verið unnið að því að tryggja samkeppnisumhverfi á fjarskiptamarkaði. Með hliðsjón af því hefur verið unnið skipulega að því að bæta úr dreifikerfi Landssímans sem hefur verið æðiholótt, eins og hér hefur verið bent á, þrátt fyrir að stofnunin hafi verið í ríkiseigu. Það hefur einnig verið unnið markvisst að því að jafna aðstöðu landsmanna að svonefndu dreifikerfi.

Herra forseti. Það er mikilvægt að ríkissjóður fái sem mest fyrir eigur sínar. Sala hlutabréfa byggir að miklu leyti á huglægu mati kaupenda, þ.e. trú þeirra á bréfunum, trú þeirra á þeirri fjárfestingu sem lagt er í. Hér er um að ræða hlutabréf í eigu ríkisins. Ég tel, herra forseti, að framkoma stjórnarandstöðu í þessu máli hafi frá upphafi verið með ólíkindum. Upphrópanir, köll og neikvæðar yfirlýsingar skyldu þó ekki hafa dregið úr tiltrú markaðarins, svo merkilegt sem það hljómar, og þar með beinlínis skaðað ríkissjóð? Það er mikil ábyrgð, herra forseti, að tala svo ógætilega sem stjórnarandstaðan hefur gert um mikilvægar eignir ríkissjóðs.