Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:49:21 (343)

2001-10-10 13:49:21# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það verður seint sagt að salan á Landssíma Íslands hafi tekist eins og menn óskuðu. Fyrir því eru margar ástæður sem hafa þegar verið nefndar, óheppileg tímasetning, flóknar leikreglur við söluna og e.t.v. óraunhæft verðmat. Vonandi á þetta þó ekki eftir að skaða ferlið meira en orðið er en við eigum líka að nota reynsluna til að læra af.

Nú síðustu daga hefur trúverðugleiki einkavæðingar\-áformanna verið nokkuð til umræðu. Trúverðugleika forstjóra Landssímans hefur borið á góma vegna tengsla hans við fyrirtæki sem skilaði áhugayfirlýsingu á 25% kjölfestuhluta í Landssímanum, Opin kerfi hf. Formaður einkavæðingarnefndar tekur undir gagnrýnina í DV og orðar það svo að ferlið þurfi ekki aðeins að vera hlutlaust heldur þurfi það að virðast vera það líka. Undir þetta get ég tekið. Þetta snýst um trúverðugleika. En formaður einkavæðingarnefndar hefur líka verið gagnrýndur fyrir að vera í tvöföldu hlutverki, annars vegar við að selja eignir ríkisins en hins vegar sé hann mikilvirkur í persónulegum viðskiptum á markaði.

Aftur komum við að trúverðugleikanum. Auðvitað á sá einstaklingur sem fær það mikilvæga ábyrgðarhlutverk að stýra viðamikilli sölu ríkiseigna og hefur mikið um það að segja hvernig þær fara á almennan markað að vera algerlega hafinn yfir gagnrýni af þessu tagi, ella fer trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar og einkavæðingaráformanna fyrir lítið.

Samfylkingin telur eðlilegt að þau fyrirtæki ríkisins sem eru í samkeppnisrekstri verði seld. Hins vegar er ekki sama hvernig staðið er að sölu ríkiseigna. Markmiðið hlýtur að vera að fá sem hæst verð fyrir eignirnar og aflétta einokun á sviðum sem samkeppni á að geta þrifist, neytendum og öllum almenningi til hagsbóta. Á því hvernig til tekst ber ríkisstjórnin óskoraða ábyrgð og getur ekki skellt skuldinni á neinn annan ef miður fer.

Það má um margt gagnrýna vinnubrögð ríkisstjórnarinnar við einkavæðingaráformin og er tími til kominn að þau verði endurskoðuð áður en lengra er haldið. Salan á Landssímanum gefur ríkisstjórninni næg tilefni til slíkrar naflaskoðunar.