Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:58:34 (347)

2001-10-10 13:58:34# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Sala Símans er eðlilegt og rökrétt framhald á því efnahags- og atvinnuumhverfi sem þróast hefur hér og þroskast á undanförnum árum. (SJS: Og vel heppnað.) Einkar vel heppnað.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að hafa markmið slíkrar sölu í huga en þau eru í meginatriðum að annars vegar er sölunni ætlað að skapa tekjur fyrir ríkissjóð samhliða því að einkaaðilum er falinn reksturinn og hins vegar það, sem ekki er síður mikilvægt, að styrkja samkeppnisumhverfið enn frekar, en það skilar sér eins og við vitum í betri þjónustu og hagstæðari gjöldum til neytenda.

Síðara atriðinu virðast Samfylkingin og nokkrir þingmenn hennar algerlega hafa misst sjónar af þegar þeir hafa haft uppi þá gagnrýni að betra hefði verið að selja Símann í vor, á sama tíma og Íslandssími stóð í hlutafjárútboði sínu, frekar en í haust. Þessi gagnrýni er reyndar ekki heldur í samræmi við þær ráðleggingar sérfræðinga sem töldu að markaðurinn færi upp á við með haustinu en látum það liggja á milli hluta. Reyndar er ekki hægt að fylgjast nákvæmlega með stefnu Samfylkingarinnar í sölumálum Símans þar sem sú stefna er breytileg frá degi til dags.

Markmið einkavæðingar ríkisfyrirtækja er ekki að valta yfir þá samkeppnisaðila Símans sem eru að reyna að fóta sig á annars viðkvæmum og krefjandi markaði heldur að styrkja og efla þá samkeppisstöðu sem fyrir er.

Herra forseti. Að krefjast þess líkt og Samfylkingin gerði, þ.e. að fara af stað með sölu Landssímans á sama tíma og annað fyrirtæki er að reyna að festa sig í sessi, lýsir miklu skilningsleysi og vanþekkingu á samkeppnismarkaðnum.