Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:10:47 (351)

2001-10-10 14:10:47# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rangt sem hv. þm. hélt fram að verið væri að þrengja eitthvað sérstaklega að Ríkisútvarpinu. Það er talið að rekstrartekjur þess á þessu ári verði um 2,7 milljarðar og ég held að það séu fáir fjölmiðlar hér á landi sem hafa jafnmiklar tekjur og Ríkisútvarpið.

Það sem hefur gerst hjá Ríkisútvarpinu eins og á öðrum fjölmiðlum er að auglýsingatekjur hafa minnkað og ég hef talið sjálfsagt að Ríkisútvarpið brygðist við með sama hætti og aðrir fjölmiðlar þegar auglýsingatekjur minnka að þá taki menn mið af því. Þar er Ríkisútvarpið í samkeppnisrekstri við aðra og því sé tekið mið af því í rekstri Ríkisútvarpsins og þá rifi menn seglin ef nauðsyn krefur þegar slíkar tekjur minnka. En almennt séð er ekki unnt að segja að það sé verið að þrengja eitthvað sérstaklega að Ríkisútvarpinu. Því var heimiluð hækkun á afnotagjöldum núna á þessu ári og tekjur þess af afnotagjöldunum eru að aukast, þannig að það verður að nálgast þetta mál á réttum forsendum.

Hins vegar er það rétt að auglýsingatekjurnar hafa minnkað og það er sá vandi sem menn standa frammi fyrir í Ríkisútvarpinu eins og menn standa frammi fyrir í öllum fjölmiðlum hér á landi og eru að taka á, hver með sínum hætti. Ef Ríkisútvarpið er á annað borð í samkeppnisstöðu, eins og það er varðandi auglýsingamarkaðinn, þá finnst mér ekki eðlilegt að þannig sé staðið að verki að þegar þær tekjur minnka þá séu opinberar álögur hækkaðar til þess að brúa bilið. Það er hlutur sem menn verða að líta til þegar þetta mál er rætt.

Varðandi síðan einstök atriði þegar rætt er um að taka þurfi á fjármálum Ríkisútvarpsins þá er það svo að nú fara fram viðræður með fulltrúum menntmrn., Ríkisendurskoðunar og fjmrn. og fulltrúum Ríkisútvarpsins um fjármál stofnunarinnar þar sem farið er yfir einstaka þætti, tekið mið af þeim áformum sem menn hafa verið með innan stofnunarinnar um fjárhagslegt aðhald, tekið mið af því sem menn sögðu að mundi gerast innan stofnunarinnar þegar hún flyttist í eitt hús o.s.frv. Það liggja fyrir ýmsar áætlanir frá undanförnum árum frá Ríkisútvarpinu um hagræðingu í rekstri þess sem mér finnst sjálfsagt að skoða og fara yfir. Hitt er ljóst varðandi lífeyrisgreiðslurnar að það þarf að taka það mál til sérstakrar skoðunar.

Varðandi svæðisstöðvarnar og það sem hv. þm. vék sérstaklega að um þær þá er mér kunnugt um að útvarpsráð fjallaði um það mál á fundi sínum í gær og fékk þá m.a. nýjar upplýsingar um stöðu mála frá svæðisútvarpi Ríkisútvarpsins á Akureyri sem verða athugaðar á milli funda í ráðinu og síðan verður tekin afstaða til málsins að nýju eftir tvær vikur. Skoðun mín í þessu efni er sú að ekki eigi að draga úr þessari þjónustu á landsbyggðinni nema unnt sé að sýna fram á verulegan fjárhagslegan sparnað í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur mikla fjármuni til ráðstöfunar, eins og ég sagði, þótt auglýsingatekjur þess dragist saman um nokkra tugi milljóna. Og RÚV heldur úti svæðisútvarpsstöðvum á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði og hefur samið við Útvarp Suðurlands um dagskrárgerð fyrir Svæðisútvarp Suðurlands. Þessi starfsemi er í samræmi við útvarpslög og árangursstjórnunarsamning við menntmrn. þar sem segir að fjölþætt íslensk dagskrárgerð í byggðum landsins verði efld í samræmi við byggðaáætlun og efni frá landsbyggðinni aukið um 5% á samningstímanum, þ.e. frá 1. jan. 2000 til 31. des. 2002.

Í ljósi þeirrar þróunar sem er í byggðamálum tel ég eðlilegt að hugað sé að nýjum aðgerðum og m.a. því hvort ekki sé unnt að nýta krafta starfsmanna og húsrými RÚV á Akureyri með skipulegri hætti á þann veg að Rás 2 verði breytt í miðstöð svæðisútvarpa með aðsetur á Akureyri. Þar með yrði til innan RÚV eining sem gæti haft jafngóð áhrif og Háskólinn á Akureyri hefur haft fyrir háskólastigið og þróun þess í landinu. Ég mun beina því til útvarpsráðs og útvarpsstjóra að þessi kostur verði skoðaður til hlítar um leið og lagt er almennt á ráðin um framtíð svæðisútvarpanna. Vona ég að fyrirspyrjandi og aðrir þingmenn séu sömu skoðunar og ég, að með slíkri breytingu á innviðum Ríkisútvarpsins yrði hlutur þess á landsbyggðinni styrktur svo um munaði.