Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:17:49 (353)

2001-10-10 14:17:49# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Án vafa er Ríkisútvarpið áhrifamesti skóli þjóðarinnar. Þessi vinsæla stofnun er enda líklega sú eina sem heldur uppi kynningu á fjölbreytileika íslenskrar menningar og þjóðarsálar. Þá er rétt að minna á að fréttastofa útvarpsins hefur ítrekað notið almenns og sterks trausts í skoðanakönnunum á meðal almennings. Það er á þessum forsendum, herra forseti, sem það er mjög mikilvægt að verja Ríkisútvarpið á grundvelli íslenskrar menningar og lýðræðis. Þetta eru í rauninni sömu rök og Thatcher notaði á sínum tíma þegar hún og félagar hennar slógu skjaldborg utan um BBC.

Við getum ekki haldið Ríkisútvarpinu áfram í spennitreyju eins og verið hefur. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, bæði frá hæstv. ráðherra og öðrum sem hafa talað í þessari umræðu, að ber að fara varlega í og ég mótmæli þeim niðurskurði sem orðið hefur á landsbyggðinni sérstaklega, ekki bara í föstum útibúum heldur líka meðal fréttaritara víða um land. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. ráðherra og ákvörðun útvarpsráðs í gær.

Fjárhagurinn er farinn að naga Ríkisútvarpið niður að rótum. Einn þriðji tekna kemur af auglýsingum og tveir þriðju af áskrift. Þessi áskriftargjöld hafa hækkað um 10% á tíu árum á sama tíma og helstu samkeppnisaðilar hafa hækkað sína áskrift um yfir 50% og allt að 70%. Við þurfum að grípa til aðgerða, við þurfum, á meðan annað hefur ekki verið gert, að leyfa a.m.k. áskriftinni að fylgja verðlagsþróun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji koma til greina að útgjöld útvarpsins til Sinfóníuhljómsveitarinnar verði færð yfir á fjárlög. Ég tel, herra forseti, mikilvægt að tryggja tilveru og grundvöll þessa áhrifaríkasta skóla þjóðarinnar.