Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:22:22 (355)

2001-10-10 14:22:22# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. kemur hér og fullyrðir að ekki sé verið að þrengja að fjárhag Ríkisútvarpsins. Nefnir hækkun afnotagjalda sem var ákveðin á þessu ári, 7%, þegar þörfin var 16% bara þannig að Ríkisútvarpið gæti haldið í við verðlagshækkanir.

Auglýsingatekjur hafa minnkað, segir hæstv. ráðherra. Hann viðurkennir það fúslega. Og hvaða aðgerðir leggur hæstv. ráðherra til sem lausn á þeim vanda Ríkisútvarpsins? Hann getur ekki á sér setið og enn eina ferðina rekur hann hornin í Rás 2 eins og óþekkur strákur úti á róló með teygjubyssu í vasanum.

Við skulum aðeins skoða, herra forseti: Hvað er það sem Rás 2 gerir fyrir Ríkisútvarpið? Aflar auglýsingatekna umfram aðra þætti í starfseminni. Hvað er ráðherrann að hugsa? Hvaða heimspeki er þetta? Hvaða hagfræði er þetta? Ekki hagfræðin sem mér var kennd í Verslunarskóla Íslands, herra forseti.

Sá þáttur sem aflar auglýsingatekna til Ríkisútvarpsins er Rás 2 og stendur undir umtalsverðum þætti rekstrar Rásar 1 sem er flaggskip íslenskra fjölmiðla. Það er vilji Alþingis að Ríkisútvarpið sé flaggskip íslenskra ljósvakamiðla. Þess vegna hefur löggjafinn lagt afar mikilvægar og vandmeðfarnar skyldur á herðar Ríkisútvarpinu, lýðræðislegar skyldur, skyldur er varða öryggi þjóðarinnar og skyldur sem eru af menningarlegum toga. Alþingi ber skylda til að tryggja þessari stofnun nægilegt fjármagn til að geta rækt allar þessar skyldur. Og að það skuli þurfa að skera niður starfsemi stofnunarinnar á þann hátt sem nú er verið að gera, þar sem það bitnar fyrst og fremst á dagskrárefninu, er ekki til þess fallið að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins sem flaggskips ljósvakafjölmiðla á Íslandi.