Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:27:09 (357)

2001-10-10 14:27:09# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh. sem hann gaf áðan um eflingu svæðisútvarpsins á Akureyri og vonandi annarra svæðisstöðva á landsbyggðinni.

Sá niðurskurður sem tók gildi nú 1. október hjá Ríkisútvarpinu á landsbyggðinni kom mér ekki á óvart. Þetta er í takt við aðrar aðgerðir og/eða aðgerðaleysi hæstv. ríkisstjórnar í byggðamálum. Orð og athafnir hafa nefnilega aldrei farið saman í byggðamálum hæstv. ríkisstjórnar.

Í byggðaáætlun er fjallað um að efla starfsemi svæðisstöðvanna, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ríkisfjölmiðlar efli starfsemi á landsbyggðinni, meðal annars með aukinni dagskrárgerð og útsendingum frá starfsstöðvum Ríkisútvarpsins þar.``

Herra forseti, við þetta hefur ekki verið staðið, svo sannarlega ekki, samanber fækkun starfa á Akureyri undanfarin ár sem hér hefur verið rædd. Og með þeim aðgerðum sem tóku gildi 1. október, er útsendingartími svæðisútvarps Norðurlands sennilega skorinn niður um 55%.

Má ég einnig benda á að nettókostnaður við svæðisútvarpið á Akureyri er einungis 20 millj. kr. Hér er því enn einu sinni verið að skera niður þjónustu á landsbyggðinni.

Herra forseti. Við afgreiðslu á þessum sparnaðartillögum í útvarpsráði bókuðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar m.a. eftirfarandi:

,,Meginábyrgðina á ófremdarástandi í fjármálum Ríkisútvarpsins ber hins vegar ríkisstjórnin og einkum menntamálaráðherra. Í hans umsjá hafa afnotagjöld, helsti tekjuliður Ríkisútvarpsins stöðugt rýrnað miðað við verðlagsþróun. Ráðherrann hefur ekki bent á aðrar tekjuleiðir og því att Ríkisútvarpinu í sífellt auknum mæli út á samkeppnismarkað auglýsinga og kostunar. Þegar nú kreppir að á þeim markaði eru að lokum ekki önnur ráð en niðurskurður á dagskrá.

Þessi fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins er í raun aðeins hluti af þeim stærri vanda að fyrirtækið hefur enga framtíðarstefnu. Starfsemi Ríkisútvarpsins einkennist því æ meir af bráðabirgðalausnum og skammtímaráðstöfunum sem koma niður á starfsanda á vinnustaðnum og sjá má í hnignandi ímynd fyrirtækisins meðal þjóðarinnar.``

Herra forseti. Þessi bókun lýsir rammanum utan um sparnaðaraðgerðir Ríkisútvarpsins. Hæstv. menntmrh. verður m.a. að svara því sem í bókuninni felst.