Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:29:29 (358)

2001-10-10 14:29:29# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins er mikill og á sér langa sögu eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði vel grein fyrir hér við upphaf þessarar umræðu.

Ríkisútvarpinu er haldið í spennitreyju og hefur verið haldið í spennitreyju undanfarin ár. Það þarf eitthvað meira að koma til heldur en innbyrðis hagræðing í fyrirtækinu eins og núna er verið að skoða. Það verður í þessu sambandi að líta á rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar og þann mikla fjárhagsvanda sem Sinfóníuhljómsveitin á við að etja líka.

Ég vildi með nokkrum orðum nefna þann þátt sem snýr að landsbyggðinni og svæðisstöðvunum því að með niðurskurði í útsendri dagskrá fæst mjög lítill fjárhagslegur sparnaður en tap verður á öðrum sviðum. Það verður mikið menningarlegt tap, það verður mikill sjónarsviptir að þeim útsendingum sem nú þegar eru á Vestfjörðum, á Akureyri og á Egilsstöðum því að það er verið að skera útsendingarnar mjög mikið niður, mest á Akureyri en sparnaðurinn verður sáralítill í krónum talið því að á móti kemur tap á auglýsingum sem vegur að mestu upp þennan fyrirhugaða sparnað.

Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að úti á landsbyggðinni hafa héraðsfréttablöðin verið að detta út. Það er ekkert dagblað gefið út á öllu Austurlandi. Svæðisútvarpið þar hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki og er eini fréttamiðillinn innan fjórðungsins. Ef það á að skera liðinn meira niður er það mikið menningarlegt verðmætatap.