Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:36:30 (361)

2001-10-10 14:36:30# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta er skrýtin ræða að hlusta á þetta allt saman, að tala um og rekja hér breytt rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins og láta eins og það sé Alþingis að bregðast við því. Hvað með önnur fyrirtæki í landinu sem standa frammi fyrir breyttum aðstæðum? Ríkisútvarpið hefur sína tekjustofna og á að gera sínar áætlanir í samræmi við þá og vinna innan þeirra tekjumarka sem því eru sett. Það er ósköp einfalt. Ríkisútvarpið gerði sjálft áætlun um flutning í Efstaleiti og það var farið eftir því í einu og öllu sem Ríkisútvarpið lagði til. Og að leggja það svo hér upp að með því sé verið leggja einhvern bagga á Ríkisútvarpið (Gripið fram í.) og búa þetta til með þessum hætti. Það er alveg furðulegt að heyra þennan málflutning þingmannsins. Hann er ekki til þess fallinn að leysa vanda Ríkisútvarpsins. Það ábyrgðarlausa tal um meðferð á opinberum fjármunum, sem hv. þm. stundar hér, er ekki til þess fallið að leysa vanda Ríkisútvarpsins. Þetta ábyrgðarlausa tal er ekkert nýnæmi. Hann vill alltaf hækka skattana. Hann vill alltaf hækka álögurnar á borgarana í landinu til að standa undir og býr svo til nýja bagga sem borgararnir eiga að greiða eins og kom fram í þessari ræðu hans. Þetta er því ekkert nýtt. Og það er ekkert nýtt fyrir þingmenn að heyra ræðuna um að hækka beri skatta, afnotagjöld og önnur gjöld á borgarana en líta ekki á það hvort menn standi að sínum rekstri með þeim hætti að hann sé innan þeirra marka sem sett eru og eru hófleg og eðlileg. (SJS: Hver ber ábyrgð á því? Er það ekki ráðherra?) Alþingi setur mörkin í þessu efni. Alþingi kemur að því að ákvarða fjárhagsramma Ríkisútvarpsins og Alþingi kemur að því að ræða þessi mál og við erum að gera það. En við gerum það ekki á þeim forsendum að það eigi alltaf að auka álögurnar á borgarana eins og hv. þm. leggur til þannig að ef auglýsingatekjur minnka þá eigi að velta því yfir á afnotagjaldagreiðendur. (SJS: Ertu búinn að segja af þér sem ráðherra?) Ég hef ekki sagt af mér sem ráðherra. Ég þarf ekki að eiga orðastað við þingmanninn á þessum forsendum. Það sýnir hvernig málflutningur hans er hvernig hann grípur hér fram í og á hvaða furðulegum forsendum það er gert.

Ég þakka fyrir þann stuðning sem hefur komið fram við þá hugmynd að flytja Rás 2 til Akureyrar, gera hana að miðstöð svæðisútvarpa og styrkja þannig landsbyggðarútvarpið undir merkjum Ríkisútvarpsins og efla þá starfsemi sem það á að reka um landið allt.