Innkaup heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:39:17 (362)

2001-10-10 14:39:17# 127. lþ. 8.1 fundur 64. mál: #A innkaup heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Árlega nota íslenskar heilbrigðisstofnanir umtalsverðar fjárhæðir til innkaupa á alls kyns rekstrarvörum, lækningatækjum, húsgögnum og margvíslegum nauðsynjavörum. Þó svo að stofnun haldi sig innan fjárlaga og eftirlit sé haft með því, virðist ekki vera haft eftirlit með innkaupum þessara stofnana eða þau endurskoðuð. Einnig virðist skorta á að tækjakaup heilbrigðisstofnana séu samhæfð. Frægt er dæmið um tækjakaup Landspítala og Borgarspítala á tölvustýrðu sneiðmyndatæki sem kostaði milljónatugi, tæki sem aðeins voru notuð skamma stund dag hvern hvort.

Heilbrigðisstofnanir hafa verið að kaupa mörg mjög dýr lækningatæki og það án sameiginlegs útboðs. Ég vil nefna dæmi þar sem þrjár heilbrigðisstofnanir keyptu röntgentæki. Hver stofnun keypti sitt tæki sem eflaust hefði kostað mun minna ef einn aðili hefði látið gera tilboð í þau öll í einu og séð um kaupin. Hvert slíkt lækningatæki kostar tugmilljónir króna. En það er algengt að verð á stórum lækningatækjum sé um 100 millj. kr. og því hagkvæmt að vera með sameiginlegt útboð, það gæti skilað tugmilljónum.

Útboð og sameiginleg innkaup hafa verið viðhöfð við kaup á rekstrarvörum með góðum árangri og hafa hinar ýmsu stofnanir geta gengið inn í þau tilboð og það er vel.

Mig langar til að nefna annað dæmi um hvernig hægt er að spara í innkaupum án þess að verið sé að gefa eftir í gæðum því að gæðin mega ekki víkja fyrir sparnaði að mínu mati. Heilbrigðisstofnun hér á landi keypti hjólastóla sem framleiddir eru í Kína samkvæmt evrópskum stöðlum á 15 þús. kr. stykkið. Fullkomlega sambærilega við hjólastóla sem aðrar stofnanir eru að kaupa á 50--70 þús. kr. stykkið. Þarna væri hægt að fá þrjá til fimm hjólastóla á verði eins.

Herra forseti. Ég spyr því hæstv. heilbrrh. hvernig staðið sé að eftirlits- og samhæfingarmálum og fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hverjir hafa eftirlit með og endurskoða innkaup heilbrigðisstofnana sem eru á fjárlögum ríkisins og hvernig er því eftirliti háttað?

2. Hverjir samhæfa tækjakaup heilbrigðisstofnana til að koma í veg fyrir hugsanlega offjárfestingu?