Innkaup heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:42:05 (363)

2001-10-10 14:42:05# 127. lþ. 8.1 fundur 64. mál: #A innkaup heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. beindi til mín tveimur fyrirspurnum:

,,Hverjir hafa eftirlit með og endurskoða innkaup heilbrigðisstofnana sem eru á fjárlögum ríkisins og hvernig er því eftirliti háttað?``

Því er til að svara að innkaup eru eins og hver annar þáttur í rekstri heilbrigðisstofnana og eru því undir stjórn og ábyrgð viðkomandi framkvæmdastjóra eða forstjóra. Framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar ber ábyrgð gagnvart heilbr.- og trmrh. og stjórn stofnunar í samræmi við lög, stjórnarfyrirmæli og erindisbréf framkvæmdastjóra. Heilbrigðisstofnunum ber eins og öðrum ríkisstofnunum að framfylgja innkaupastefnu ríkisins. Það felur m.a. í sér að stofnunum ber að fara eftir reglum varðandi innkaup, útboð á vöru og þjónustu o.fl. Stofnunum ber að nýta sér samninga sem Ríkiskaup hefur gert varðandi innkaup, m.a. svonefnda rammasamninga.

Heilbr.- og trmrn. og Landspítali -- háskólasjúkrahús gerðu á síðasta ári sérstakt samkomulag við Ríkiskaup um samstarf í innkaupamálum heilbrigðisstofnana. Samkvæmt því samkomulagi vinnur ákveðinn starfsmaður í heilbrrn. að innleiðingu og markaðssetningu rafvænna innkaupa hjá heilbrigðisstofnunum og greiningu á innkaupaþörfum þeirra með það að markmiði að auka skilvirkni og hagkvæmni í innkaupum. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun hjá heilbrigðisstofnunum eins og öðrum ríkisstofnunum. Í þessu felst m.a. að endurskoða reikninga stofnana og framkvæma stjórnsýsluendurskoðun þar sem könnuð er meðferð og nýting fjármuna. Ber Ríkisendurskoðun að vekja athygli hlutaðeigandi stjórnvalda á því sem úrskeiðis fer í rekstri og gera tillögur um úrbætur.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hverjir samhæfa tækjakaup heilbrigðisstofnana til að koma í veg fyrir hugsanlega offjárfestingu?``

Heilbrigðisstofnanir leggja fram beiðnir um fjárveitingar til tækjakaupa með fjárlagatillögum sínum. Stofnanir hafa þá forgangsraðað beiðnum eftir mikilvægi þeirra. Við fjárlagagerð leggur heilbr.- og trmrn. síðan mat á beiðni þessara stofnana um tækjakaup. Þá er lagt faglegt og fjárhagslegt mat á hversu brýn þörfin er og hvort ástæða sé til að viðkomandi stofnun hafi yfir slíku tæki að ráða. Einungis stærstu heilbrigðisstofnanir fá sérstaka fjárveitingu á fjárlögum til tækjakaupa. Aðrar stofnanir fá fjárveitingar til tækjakaupa af sérstökum safnliðum sem ráðuneytið úthlutar hverju sinni.

Um minni háttar búnað og tæki sem fjármögnuð eru af rekstrarfjárveitingu stofnana gildir það sama og um innkaup annarra rekstrarvara, samanber svarið við 1. tölulið hér að framan.

Þetta eru í stuttu máli svör við því hvernig þetta kerfi virkar og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli sem er mikilvægt í rekstri heilbrigðisstofnana.