Lyfjastofnun

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:59:22 (370)

2001-10-10 14:59:22# 127. lþ. 8.2 fundur 104. mál: #A Lyfjastofnun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu.

Hvað stendur upp úr? Það stendur upp úr að á vegum Lyfjastofnunar fór fram athugun á því hvort hægt væri að staðsetja þessi störf utan höfuðborgarsvæðisins. Hin faglega niðurstaða innan stofnunarinnar varð sú að það væri hægt. Það væri fullt af verkefnum, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, sem hægt væri að vinna utan stofnunar, gagnstætt því sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir var að halda hérna fram. Það liggur sem sagt fyrir að það er hægt, ef að því er staðið, að færa þessi verkefni frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina.

[15:00]

Hæstv. ráðherra upplýsti það hvernig að þessum tilmælum hefði verið staðið á sínum tíma og ég verð að segja að það var óskaplega vesældarlegt að segja sem svo í auglýsingu: ,,Þið megið svo sem vinna úti á landi.`` Það stóð í raun í þessari auglýsingu þannig að það ekki var von til þess að fólk færi að þyrpast til þessara starfa af landsbyggðinni þegar fyrir liggur að þetta var hvorki hrátt né soðið.

Hins vegar vil ég fagna alveg sérstaklega yfirlýsingu núv. hæstv. heilbrrh. sem mér fannst kveða við allskýran tón í þessu máli. Hæstv. heilbrrh. sagði að vilji hans stæði til þess að þessi starfsemi gæti í vaxandi mæli verið úti á landi og það kemur mér ekki á óvart. Ég þekki svo til sjónarmiða og verka hæstv. heilbrrh. að ég veit að þar hefur hann lög að mæla. Ég vil hvetja hæstv. heilbrrh. í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið frá stofnuninni sjálfri um að hægt sé að starfrækja fullt af þessum verkefnum utan stofnunarinnar úti á landsbyggðinni, til þess að gera aðra atrennu að þessu máli og reyna að tryggja að þessi verkefni verði unnin í vaxandi mæli á landsbyggðinni, m.a. vegna þess sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að hér er um að ræða sérhæfð verkefni sem krefjast háskólamenntunar. Við þurfum einmitt að búa til aðstæður sem gera það að verkum að háskólamenntað fólk, ungt fólk sem er að koma frá útlöndum og vill t.d. hasla sér völl í starfsemi af þessu taginu, eigi þess kost að búa úti á landi eins og vilji mjög margra stendur til.