Lyfjastofnun

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:01:32 (371)

2001-10-10 15:01:32# 127. lþ. 8.2 fundur 104. mál: #A Lyfjastofnun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég vil láta það koma fram í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. að mér fannst ræða hans bera keim af útúrsnúningum. Ég var aðeins að skýra frá því í hverju starfsemi stofnunarinnar væri fólgin og hvers eðlis hún væri. Hins vegar sagði ég ekkert um það að hún gæti ekki starfað úti á landi vegna þess að þar starfaði háskólamenntað fólk eða að fólk úti á landi gæti ekki sótt ráðstefnur erlendis. Það er langt í frá.

Meginrökin fyrir staðsetningu stofnunarinnar eru að viðskiptavinir hennar eru í miklum mæli á höfuðborgarsvæðinu. En það skiptir ekki máli að því leyti til, eins og hv. 1. þm. Vestf. sagði, að það hefur komið fram í athugun á þessu máli að hægt er að vinna þessi störf úti á landsbyggðinni og verið hefur gerð atrenna að því. En varast ber að að leggja út af orðum mínum öðruvísi en þau voru sögð. Ég hef alls ekki haldið því fram að stofnanir sem hafa háskólamenntað fólk innan sinna vébanda gætu ekki verið staðsettar úti á landi og fólk hefur alveg einurð til að ferðast til útlanda þó það sé ekki í Reykjavík. Það er ljóst. Ég var aðeins að skýra frá eðli þessarar stofnunar. Ég hef heimsótt hana. Þetta er miklu stærri stofnun en ég gerði mér í hugarlund áður. Hún er á einni stórri hæð úti á Eiðistorgi. Þetta er mikil starfsemi. Þetta er flókin og margbrotin starfsemi og ber þakka því fólki sem þar vinnur og hefur verið að endurskipuleggja verkefni sín.