2001-10-10 15:09:05# 127. lþ. 8.3 fundur 100. mál: #A mat umsjónarnefndar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á gildi lands norðan Vatnajökuls# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Niðurstöðurnar eru væntanlegar í þessari viku, segir hæstv. ráðherra og ég fagna því sannarlega því að það er orðið meira en tímabært að þessar niðurstöður líti dagsins ljós. Ég harma hins vegar að þessar niðurstöður skyldu ekki hafa legið fyrir á þeim tíma sem ætlað var, þ.e. á sama tíma og matsskýrsla Landsvirkjunar um umhverfismat Kárahnjúkavirkjunar lá fyrir. Þessi mikli dráttur sem orðið hefur á skilum skýrslunnar gerir það að verkum að það gagn sem hægt hefði verið að hafa af niðurstöðum hennar er orðið lítið, kannski ekkert, því að eins og allir vita er matsferli Kárahnjúkavirkjunar í sjálfu sér lokið þar sem úrskurður Skipulagsstofnunar hefur verið felldur þó svo að málið hafi síðan lent í kæruferli. Þá er málið ekki lengur þannig opið til skoðunar að hægt sé að meta ólíka möguleika á landnýtingu á svæðinu norðan Vatnajökuls því það er búið að loka málinu. Það er alveg ljóst að stefna stjórnvalda, sem eins og allir vita er að virkja á svæðinu norðan Vatnajökuls, að setja Kárahnjúkavirkjun þar niður, kemur í veg fyrir það að á sama svæði verði hægt að stofna til þjóðgarðs. Ég fullyrði því, herra forseti, að þarna rekast mál hvort á annars horn. Mikil vinna sem umsjónarnefndinni var falið að leysa af hendi fékk ekki meira vægi en svo að ekki var gerð krafa um að skýrslu hennar yrði skilað á þeim tíma sem hún mundi nýtast best til samanburðar. Ég harma því að öll sú mikla vinna sem ég efa ekki að hafi verið lögð í málið skuli ekki nýtast til þess sem upphaflega var ætlast.