Orkukostnaður lögbýla

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:17:09 (378)

2001-10-10 15:17:09# 127. lþ. 8.4 fundur 105. mál: #A orkukostnaður lögbýla# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægu og stóru máli, þ.e. vanda þeirra býla sem kynt eru með olíu og eru ekki tengd rafdreifikerfinu. Rétt er að hafa í huga að mjög miklar framfarir hafa orðið varðandi tækni á sviði raforkuframleiðslu á síðustu árum, ekki síst í Evrópu og nefni ég sem dæmi að Danir eru leiðandi í veröldinni við að framleiða vindmyllur.

Kostnaður upp á 222 þús. kr. á ári til að kynda eitt býli eru yfir 2 millj. kr. á tíu árum. Í ljósi þeirra miklu framfara sem hafa orðið og nýrrar tækni sem komið hefur fram teldi ég mjög hyggilegt að líta til þeirra þátta svo sem vindmyllna á þessi einangruðu býli sem ekki tengjast kerfinu og megi nýta fjárfestinguna eða það fé sem fer til niðurgreiðslna til að koma slíku upp.