Lífríkið á Hornströndum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:33:20 (386)

2001-10-10 15:33:20# 127. lþ. 8.6 fundur 103. mál: #A lífríkið á Hornströndum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Á 122. löggjafarþingi, veturinn 1997--1998, fluttu þingmenn Vestf. till. til þál. um tilraunaveiðar á ref og mink á friðlandinu á Hornströndum. Málið var ekki útrætt og var endurflutt ári síðar og þá hafði tillögugreininni verið breytt í samræmi við niðurstöðu meiri hluta umhvn. og hljóðaði þá svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að heimila tímabundnar og takmarkaðar veiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Náttúrustofa Vestfjarða og Háskóli Íslands setji reglur um og hafi eftirlit með veiðunum og gefi ráðherra skýrslu þar sem fram komi niðurstöður um áhrif veiðanna. Tryggt verði að veiðarnar spilli ekki árangri þeirra rannsókna sem fram undan eru á refum á svæðinu.``

Þetta mál fékk öllum að óvörum talsverða umfjöllun í þinginu. Því máli var þannig komið fyrir að undir hálfgerðum hótunum um ofbeldi og purkunarlitlum málþófshótunum tókst illu heilli að koma í veg fyrir að vilji meiri hluta umhvn. næði fram að ganga. Málið var því miður stoppað í meðförum þingsins og komst ekki lengra. Þetta gerðist þrátt fyrir að margir séu þeirrar skoðunar að núverandi ástand sé farið að valda tjóni á lífríkinu á Hornströndum. Menn hafa vakið athygli á því að sú staðreynd að ekki hafi verið staðið fyrir neinum veiðum á ref og mink í friðlandinu hafi valdið tjóni á lífríkinu á sjálfum Hornströndum en jafnframt hafa íbúar nærliggjandi byggða, bæði á Hornströndum og inni við Ísafjarðardjúp, vakið athygli á því að það hafi orðið gegndarlaus fjölgun á ref og mink í friðlandinu sem valdi búsifjum utan friðlandsins.

Enn hefur athygli okkar verið vakin á þessu í opinberri umræðu. Þess vegna brá ég á það ráð að spyrja hæstv. umhvrh. af þessu tilefni hvort hæstv. ráðherra telji tilefni til að bregðast við upplýsingum um að fjölgun refa og minka sé farin að hafa neikvæði áhrif á lífríkið í friðlandinu á Hornströndum.