Lífríkið á Hornströndum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:41:59 (389)

2001-10-10 15:41:59# 127. lþ. 8.6 fundur 103. mál: #A lífríkið á Hornströndum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því að mikilvægt sé að fjölbreytileikinn haldi sér. Sumir hafa talað um að lífríkið eigi undir högg að sækja vegna refsins. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess miðað við þær upplýsingar sem við höfum. Þó er sjálfsagt að menn fylgist áfram með refnum og lífríkinu á Hornströndum og þingið hefur komið myndarlega að því.

Náttúrustofan á Vestfjörðum hefur á síðustu árum, frá 1998 til dagsins í dag, fengið fjárveitingar til þessara rannsókna. Ég veit að hv. þm. Vestf. hafa staðið dyggilega við bakið á stofunni varðandi þau mál en 12,5 millj. hafa farið til rannsókna á lífríkinu á Hornströndum, þar á meðal til refarannsókna. Þess vegna búum við yfir þokkalegum upplýsingum þó að þær mættu að sjálfsögðu vera meiri og þeim fjölgar trúlega með tímanum.

Við sjáum ekki neitt sem bendir til þess að lífríkið eigi undir högg að sækja vegna refsins. Við sjáum heldur ekki að refurinn leggist mikið á lömb. Mér skilst að dánartíðni lamba hafi ekki aukist þarna í kring. Hins vegar hefur ref fjölgað almennt á Íslandi, um allt land. Það hefur sýnt sig að hærri framlög hafa farið til þess eiga við refinn um allt land. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með þessum málum áfram en ég tel ekki ástæðu til, miðað við þær upplýsingar sem við búum yfir, að grípa inn í með aðgerðum að svo stöddu.