Skemmtanahald á útihátíðum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:44:04 (390)

2001-10-10 15:44:04# 127. lþ. 8.7 fundur 107. mál: #A skemmtanahald á útihátíðum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Í kjölfar útihátíða síðustu verslunarmannahelgar var mikil umræða í fjölmiðlum um útihátíðarmenningu þjóðarinnar og um það ástand sem skapaðist, ekki síst á svokallaðri Eldborgarhátíð þar sem saman voru komin um 8 þúsund manns.

Ýmsir aðilar funduðu um málið, t.d. þeir sem starfa á sviði vímuefnavarna og einnig þeir sem starfa í þágu fórnarlamba kynferðisofbeldis. Hæstv. dómsmrh. var meðal þeirra sem brugðust við og frá því var skýrt í fjölmiðlum 8. eða 9. ágúst að hún hefði ákveðið að setja á laggirnar starfshóp sem ætti að fara yfir reglur um skemmtanahald á útihátíðum. Það er sannarlega ekki vanþörf á, eftir þær hremmingar sem fólk lenti í á þessum útihátíðum síðustu verslunarmannahelgar.

Það er auðvitað grafalvarlegt mál, herra forseti, þegar haldnar eru útihátíðir --- sem við þekkjum öll að eru að hluta til fylleríssamkomur --- þar sem ekki er gætt lágmarksheilbrigðisþjónustu og þar sem framdir eru ófyrirleitnir glæpir eins og þeir sem við fréttum af eftir síðustu verslunarmannahelgi, að menn byrluðu væntanlegum nauðgunarfórnarlömbum sínum smjörsýru til að auðvelda sér glæpina. Það að ekki hafi verið krafist almennilegrar aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu á þessum hátíðum er skelfilegt að horfast í augu við.

Ég fagnaði í hjarta mínu þeirri ákvörðun hæstv. ráðherra að skipa starfshópinn sem ég nefndi í upphafi máls míns. Nú spyr ég hæstv. ráðherra frekar út í starf þessa hóps: Hvað líður störfum hans? Þegar um svo alvarleg mál er að ræða þá skiptir verulegu máli, herra forseti, að rétt og vel sé unnið, að þeir hópar sem til svona starfa veljast hafi skýrt upplegg og geti skilað af sér vinnu sem komi til með að gagnast þeim sem á þurfa að halda.