Skemmtanahald á útihátíðum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:51:46 (392)

2001-10-10 15:51:46# 127. lþ. 8.7 fundur 107. mál: #A skemmtanahald á útihátíðum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka upp þetta mál og dómsmrh. fyrir snögg viðbrögð eftir verslunarmannahelgina og þau svör sem hún hefur gefið hér. Ég held að öllum sé ljóst að ákveðin kaflaskil hafi orðið í útihátíðahaldi um síðustu verslunarmannahelgi. Það voru óhuggulegar lýsingar á aðbúnaðinum sem unglingunum var boðið upp á. Rusl lá á víðavangi og salerni voru illa þrifin og slíkt og almennt taumleysi ríkti.

Alvarlegasta hliðin á þessu máli var fjöldi nauðgana og annarra ofbeldisverka sem komu upp á þessum hátíðum og þeim aðferðum sem var beitt við ofbeldisverkin. Það er eins og að senda börnin sín á hættusvæði að leyfa þeim að fara á þessar útihátíðir. Ég held að tímabært sé að foreldrar sammælist um að setja ákveðnari reglur um aldurstakmark barna sem fá að fara á útihátíðir af þessu tagi og það er nauðsynlegt, eins og kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að setja ákveðnari reglur frá hendi stjórnvalda um þessi mál.