Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:36:33 (398)

2001-10-11 10:36:33# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil út af fyrir sig þakka hv. framsögumanni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi með tiltölulega málefnalegum hætti þó ég sé þeirrar skoðunar, að því er þessa deilu varðar eins og aðrar kjaradeilur, að þær leysist ekki í sölum Alþingis heldur við samningaborðið sem er ekki að finna í þessum sal.

Ég vil byrja á því að segja, herra forseti, að ég tel að sjúkraliðastéttin sé afskaplega mikilvæg starfsstétt í þjóðfélaginu. Þetta er stétt sem sinnir mikilvægum líknar-, hjálpar-, umönnunar- og hjúkrunarstörfum sem ekki ber að vanmeta. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi sjúkraliðans.

En það er með þessa kjaradeilu eins og aðrar að það verða báðir að leggja sig fram um að reyna að semja og ríkisvaldið verður auðvitað að hafa til hliðsjónar þá samninga sem það hefur gert við aðra starfshópa og það verður líka að hafa til hliðsjónar það sem fyrir liggur af öðrum samningsvettvangi. Sjúkraliðar starfa víðar en hjá ríkinu. Það eru til að mynda sjúkraliðar í bæjarstarfsmannafélögum víða um landið. Eg held að það séu eitthvað í kringum 70 sjúkraliðar í Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar og þeir hafa fyrir löngu samið við sína vinnuveitendur og gert svokallaða aðlögunarsamninga á grundvelli kjarasamninganna frá 1997. Ég er hræddur um að menn verði líka að gefa gaum að slíkum fordæmum sem samið hefur verið um annars staðar á kjaravettvangnum.

Nú er staðan því miður sú að Sjúkraliðafélagið er eina stéttarfélagið sem semur við ríkið sem ekki hefur gert kjarasamning í þessari lotu. Það er eina félagið sem er eftir af aðildarfélögum BSRB eða annarra samtaka og er mjög miður að þetta skuli hafa dregist með þessum hætti. Það er fyllsta ástæða til að harma það en ég hafna því að þar sé eingöngu ríkisvaldinu um að kenna. Er það eingöngu ríkisvaldinu að þakka að það er búið að semja við öll hin félögin? Auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað er þetta þannig að tveir aðilar koma að þessu samningaborði og báðir verða að leggja sig fram.

Við höfum lagt áherslu á tvennt í þessu máli, bæði það að kostnaðaráhrifin af þessum samningum yrðu sambærileg við áhrifin af samningum við aðra. Þar með er ekki endilega sagt að launahækkanirnar í prósentum eða launatölurnar sjálfar eigi að vera nákvæmlega eins. Kostnaðaráhrifin eru það sem við viljum leggja áherslu á og svo hitt að dregið verði úr miðstýringunni í samningnum og hann verði í meira mæli fluttur yfir til stofnananna sem viðkomandi starfsmenn vinna hjá, að það verði meiri áhersla lögð á svokallaða stofnanasamninga.

Enn sem komið er hefur ekki tekist að finna flöt á þessu og því miður er það svo að Sjúkraliðafélagið hefur haldið sig við sína upphaflegu kröfu, um mjög mikla hækkun grunnlauna. Ef eitthvað er hefur sú krafa verið ítrekuð og endurtekin upp á síðkastið, þegar maður hélt satt að segja að það væri eitthvað farið að miða í deilunni milli samningsaðila.

Ég geri mér auðvitað vonir um að það takist að ná landi í þessari kjaradeilu sem fyrst. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og hv. framsögumaður undirstrikaði, ekki bara fyrir fólkið sem nýtur þjónustu þessara starfsmanna og stofnananna sem sjúkraliðarnir vinna hjá, sem þurfa að geta rekið sína starfsemi í friði og í þokkalegu góðu trausti þess að starfsemin rofni ekki eða slitni, heldur er það líka mikilvægt fyrir sjúkraliðana sjálfa að komist verði að niðurstöðu í þessu máli. Þess vegna hafna ég því að ríkið, fjmrn. eða fjmrh. hafi þröngvað sjúkraliðum út í verkfallsátök, eins og framsögumaðurinn komst að orði. Ég hafna því algerlega um leið og ég vil skora á viðsemjendur okkar, sem eiga fulltrúa sína hér uppi á pöllum, að ganga heils hugar að þessu verki með það fyrir augum að ljúka samningum. En þá verða báðir aðilar auðvitað nokkuð á sig að leggja eins og ævinlega í slíkum samningum.