Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:41:48 (399)

2001-10-11 10:41:48# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Samningar sjúkraliða hafa verið lausir frá 1. nóvember í fyrra eða í tæpt ár. Þann tíma hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar haldið þeim í kjaraprísund. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt fyrir alla, ekki síst fyrir velferðarkerfið, að þessi deila verði leyst sem fyrst. Sjúkraliðum hefur verið boðið upp á smánarlaun fyrir þeirra erfiðu og verðmætu störf. Laun þeirra hafa dregist verulega aftur úr viðmiðunarstéttum, svo sem lögreglumönnum, tollvörðum og hjúkrunarfræðingum. Krafa þeirra er að sá mikli munur verði jafnaður. Það er sanngjörn krafa.

Stjórnvöldum ber einnig að standa við alþjóðasamþykktir um sömu laun karla og kvenna fyrir jafngild störf. Krafa sjúkraliða er að byrjunarlaun þeirra verði sambærileg við laun tollvarða og lögreglumanna. Í dag fá sjúkraliðar minna en 90 þús. kr. í byrjunarlaun.

Einn stærsti vandinn í heilbrigðisþjónustu okkar er mannaflaskorturinn. Við honum verður að bregðast. Það verður ekki gert nema með því að meta störfin að verðleikum og greiða fyrir þau mannsæmandi laun. Öldruðum mun fjölga og þörfin fyrir hjúkrun og umönnun þeirra og annarra mun aukast. Það kallar á fleiri hendur til þeirra starfa.

Þær eru áhyggjuefni og sláandi niðurstöðurnar úr viðhorfskönnun Sjúkraliðafélagsins, að yngsta fólkið sem útskrifast skilar sér ekki inn í greinina. Það fer í önnur og betur borguð störf. Fjöldi sjúkraliða hefur gefist upp á þeim smánarkjörum sem þeim eru boðin. Stéttin er að deyja út. Það er vanvirðing af hálfu ríkisstjórnarinnar við hin verðmætu störf sjúkraliða og við sjúklinga sem þurfa á þjónustu þeirra að halda að sjúkraliðar neyðist enn á ný til að beita verkfallsvopninu til að knýja fram kjarabætur.