Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:44:04 (400)

2001-10-11 10:44:04# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hlýt sem ráðherra heilbrigðismála að hafa miklar áhyggjur af þróuninni í kjaradeilu ríkisins og Sjúkraliðafélags Íslands sem óhjákvæmilega hefur veruleg áhrif á heilbrigðisþjónustuna í landinu. Það er vilji minn að hægt verði að halda uppi öflugri heilbrigðisþjónustu alls staðar á landinu til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Til þess að svo megi verða verðum við að hafa ánægt starfsfólk.

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að gæði þjónustunnar ákvarðast fyrst og fremst af starfsfólkinu sem veitir þjónustuna, hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar eða ófaglærðir. Ég tek undir það að hlutverk sjúkraliða er afar mikilvægt í heilbrigðisþjónustunni. Þetta vita allir sem njóta þessarar þjónustu, ekki síst þeir sem þarfnast umönnunar þegar heilsan hefur gefið sig vegna aldurs eða sjúkdóma.

Að sjálfsögðu eru það ekki eingöngu launin sem skapa góða starfsaðstöðu og ánægju á vinnustað þó að ég dragi síður en svo úr mikilvægi þeirra. Ráðuneytið vill stuðla að góðu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólkið og leggur áherslu á að skoða allar þær leiðir með sjúkraliðum sem geta leitt til lausnar á þessari deilu. Ég veit að mikil vinna hefur verið lögð fram af hálfu Sjúkraliðafélags Íslands og Landspítala -- háskólasjúkrahúss við gerð stofnanasamnings og hefur ríkt góður samstarfsandi milli aðila. Þessari vinnu lýkur ekki endanlega fyrr en ljóst hefur verið um innihald miðlægs kjarasamnings. Það er von mín að við gerð stofnanasamninga verði hægt að aðlaga launakerfi sjúkraliða betur að þeim störfum og aðstæðum sem sjúkraliðar starfa við um allt land.

Það er einlæg ósk mín og von að aðilar nái hið fyrsta samkomulagi sem þeir geta báðir sætt sig við eins og gengur í kjarasamningum í landinu.