Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:48:29 (403)

2001-10-11 10:48:29# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Uppsagnir sjúkraliða eru mikið áhyggjuefni, en það eru ýmsar aðstæður í vinnuumhverfi sjúkraliða sem þarf að taka tillit til við lausn kjaradeilunnar. Sjúkraliðar eru nær eingöngu konur. Vinnan getur verið mjög erfið, og eykur vaktavinnan enn frekar á það álag sem er í vinnunni. Sjúkraliðum býðst alla starfsævi fátt annað en vaktavinna. Og þegar konur eldast hlýtur viðvarandi vaktavinna að vera mjög slítandi enda er mikið brottfall úr stéttinni eftir að sjúkraliðar hafa náð 50 ára aldri. Nýliðun ungra sjúkraliða er mikið áhyggjuefni enda skila þeir sér ekki inn í umönnunarstörfin að loknu námi heldur leita í önnur og betur launuð störf.

Starfsemi heilbrigðisstofnana hefur orðið fyrir mikilli röskun. Hún hefur verið mismunandi eftir sjúkrahúsum en hún verður viðvarandi ef þessi kjaradeila leysist ekki hið fyrsta. Hætt er við að fleiri sjúkraliðar en nú þegar hafa sagt upp störfum hverfi úr umönnunarþjónustunni í betur launuð störf. Eins og fram hefur komið hafa um 100 sjúkraliðar þegar hætt og óljóst hvort þeir muni hverfa til starfa sinna aftur.

Ef taka má mið af launaþróun karla og kvenna í sambærilegum störfum undanfarna áratugi mega kvennastéttir eins og sjúkraliðar bíða næstu þrjár kynslóðir eftir launajafnrétti. Er það samkvæmt jafnréttisáætlun? Er það ásættanlegt?