Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:01:27 (409)

2001-10-11 11:01:27# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er nú út af fyrir sig ekki miklu við þetta að bæta. Þessi umræða skilur ekki mikið eftir frekar en maður átti von á.

Þó kom það fram í máli eins þingmanns að það stæði upp á ríkið að gera sambærilega leiðréttingu gagnvart sjúkraliðum og gert hefur verið við aðrar stéttir. Þetta sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon en þetta er ekki rétt vegna þess að við erum að tala um að gera sambærilega leiðréttingu að því er varðar kostnað. Um það er verið að tala. Ég veit ekki hvernig þingmaðurinn vill túlka sín eigin orð með það.

Ég hafna því líka algjörlega að ég hafi verið að skella skuld á einhverja ákveðna aðila utan við þessa deilu í máli mínu. Ég vakti bara athygli á því að ákveðinn hópur sjúkraliða er í öðrum stéttarfélögum en því sem á í þessari deilu. Auðvitað er ekki hægt að horfa fram hjá því.

Aðalatriðið í þessu máli, herra forseti, er að sjálfsögðu það að leysa deiluna eins fljótt og hægt er. Það verður að gera innan þess ramma sem ríkinu er mögulegur í þessu máli. Sá rammi hefur m.a. orðið til í þeim samningum sem við höfum gert við aðra opinbera starfsmenn, sem hv. 13. þm. Reykv. er líka umboðsmaður fyrir sem formaður BSRB. Við höfum reyndar átt ágætt samstarf um þetta á umliðnum mánuðum. Við gerðum t.d. í vor samkomulag um að hækka vaktaálag hjá ákveðnum hópum, þar á meðal sjúkraliðum og öðrum þeim sem starfa við sambærilegar aðstæður.

En ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ríkið getur ekki gengið einhliða að þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram. Enginn sem semur við ríkið getur ætlast til þess að það verði gert, að bara verði skrifað undir kröfurnar og menn þurfi ekkert að koma til móts við ríkið. Það er ekki sanngjörn krafa af hálfu viðsemjenda okkar. Við ætlumst til að þeir komi til móts við okkur og þá mun ekki standa á ríkinu að reyna að leysa þetta mál.