Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:45:16 (418)

2001-10-11 11:45:16# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Halldór Blöndal (andsvar):

Ég átta mig ekki alveg á því sem hv. þm. sagði þegar hann ræddi um hvað gerst hefði í sambandi við nýbygginguna við Austurstræti. Ég óskaði sérstaklega eftir því við ríkisendurskoðanda að hann færi nákvæmlega yfir þetta mál og skýrði það frá toppi til táar. Ég vil jafnframt taka fram að þegar rætt var um þessi mál í sambandi við fjáraukalög fyrir síðasta ár sá fjárln. ástæðu til að rannsaka málið á eigin vegum fram hjá forsætisnefnd og lagði þar til þær fjárhæðir sem veittar voru í fjáraukalögum, svona hér um bil. Ég taldi að vísu að það væri ónóg og bað um að þar yrði meira fjár aflað. Fjárln. tók þá með sínum hætti ábyrgð á því að fjárlagaheimildir í fjáraukalögum væru nægar.

Síðan kom í ljós þegar ég kom frá Kanada --- ég hafði verið mér þar til hvíldar --- að þær tölur voru ófullnægjandi. Ég hef ekki skýringar á því. En hitt veit ég að þetta fordæmi kennir okkur að Alþingi getur ekki treyst á framkvæmdarvaldið né heldur eftirlit fjármála fjárln. í sambandi við framkvæmdir hér á reitnum.