Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:46:50 (419)

2001-10-11 11:46:50# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:46]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hér eru býsna alvarlegar yfirlýsingar gefnar af hv. þm. Það er ekki hægt að treysta framkvæmdarvaldinu. Það er ekki hægt að treysta fjárln. Ég held að í stuttu andsvari sé ekki hægt að svara öllum þeim stóryrðum sem hér féllu.

En það er alveg ljóst að ekki eru skýringar á öllu komnar fram, eins og kom fram hjá hv. þm. Það hafa ekki fengist svör við öllum spurningum. Það er auðvitað alveg ljóst að nokkrar fullyrðingar stangast á og ég ætla ekki í þessum ræðustól að gerast dómari í því hver hefur rétt fyrir sér.

Skýrslan sem hv. þm. nefndi, þ.e. skýrsla frá Ríkisendurskoðun, hefur ekki fengið afgreiðslu enn í fjárln. og á meðan hún hefur ekki fengið afgreiðslu þar hefur nefndin ekki lokið vinnu sinni við málið. Það er afar mikilvægt, ekki síst fyrir þessa stofnun hér, að þetta mál komist á hreint þannig að það liggi algjörlega ljóst fyrir hvað hafi farið úr böndum. Þannig er hægt að læra af reynslunni. Einnig er mikilvægt að það sé algerlega kristaltært hvar ábyrgðin liggur í málinu, vegna þess að þessi stofnun getur að sjálfsögðu ekki skilið jafnstórt mál og þetta eftir einhvers staðar úti í móum. Það verður að fá skýringar.

Það kom fram hjá hv. þm. að hv. þm. getur ekki skýrt hvernig á því stóð að ekki var sett eins mikið fjármagn til þessara framkvæmda á síðasta ári og virtist síðan koma fram að þyrfti. Það er væntanlega sameiginlegt áhugamál allra hv. þm. að fá þetta mál algjörlega á hreint þannig að við getum lært af reynslunni. Vonandi verður staðið betur að þeim framkvæmdum sem fram undan eru.