Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:48:50 (420)

2001-10-11 11:48:50# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:48]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur hér mælt fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001. Fjáraukalögin og framlagning þeirra gefa tilefni til að skoða vinnu Alþingis við fjárlagagerðina í heild, ábyrgð þingsins og hlutverk framkvæmdarvaldsins.

Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á fjárlagaferlinu --- ,,skipulagi og aðferðum sem tengjast mótun, þinglegri afgreiðslu og framkvæmd fjárlaga á Íslandi,`` segir í upphafsorðum skýrslunnar. Í þessari skýrslu er síðan rakið allítarlega hvernig undirbúningi við fjárlagagerðina er háttað hjá ríkisstjórninni, hjá einstökum stofnunum, hjá ráðuneytunum og síðan hjá fjárln. og Alþingi.

Ég tel, herra forseti, að full ástæða sé til þess að Alþingi taki þessa skýrslu til formlegrar umfjöllunar og fari yfir þær ábendingar sem þar eru. Þessi skýrsla er til meðferðar í fjárln. og hefur þar aðeins verið farið yfir hana en hún er til frekari skoðunar í nefndinni. Ég tel raunhæfan möguleika að hún komi síðan til umræðu og meðferðar hjá Alþingi til þess að Alþingi geti látið skoðun sína í ljós um hvað betur mætti fara.

Í þessari skýrslu er rakið ferlið í heild sinni og einnig minnt á hvað áunnist hafi í þessari vinnu á liðnum árum, hvað hafi batnað og hvað mætti betur fara. Ég vil einmitt gera fjárlagaferlið að umtalsefni út frá mínum eigin hugleiðingum í tengslum við þessa skýrslu og kynnum mínum af þessari vinnu.

Eins og er hefst fjárlagaferli næsta árs formlega í upphafi ársins, þannig að í mars eru komin drög að stefnumörkun í ríkisfjármálum frá ríkisstjórninni fyrir komandi ár. Þá eru komnar fram upplýsingar um bundin útgjöld og fyrstu drög tekjuáætlunar næsta árs. Þá er kominn grunnur til að ákveða hver skuli vera afkomumarkmið þjóðarbúsins á næsta ári og hver áætlaður heildarfjárlagaramminn skuli vera. Þetta liggur venjulega fyrir, eins og nú er, í mars og síðan hefst vinnan í framhaldi af því.

Herra forseti. Ég tel að það væri athugandi að einmitt á vormánuðum, í apríl eða vel fyrir lok vorþings, legði hæstv. fjmrh. fram eins konar frumdrög að fjárlagafrv. fyrir næsta ár, þar sem greint yrði frá þeim meginmarkmiðum sem ætlunin væri að stefna að, meginþáttum í útgjöldum fyrir næsta ár. Þá gæfist þinginu kostur á því að fjalla um það strax á því stigi og leggja fram athugasemdir eða áherslur inn í vinnuna fyrir komandi ár. Að þeim umræðum loknum væri síðan eðlilegt að frv. yrði í raun vísað til fjárln. Fjárln. hefði síðan tilsjón með vinnu fjárlagafrv. þar til það yrði þá lagt fram fyrir þing að hausti eins og nú er. Vinnan yrði þar unnin, eins og ég segi, með tilsjón fjárln. og með þátttöku ráðuneyta og ríkisstjórnar, en fjárln. kæmi beint að málinu.

Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að eins og er er þáttur þingsins og fjárln. afar takmarkaður við fjárlagagerðina. Segja má, eins og hér hefur oft verið nefnt, að ríkisstjórnin styðjist við meiri hluta Alþingis við undirbúning vinnu sinnar og margt er rétt í því. En staðreyndin er sú að fjárlög eru afgreidd af Alþingi og Alþingi ber ábyrgð á þeim, Alþingi í heild sinni en ekki bara meiri hluti þingsins. Það er því þingið allt sem afgreiðir frv. og þess vegna er mjög mikilvægt að þingið sem heild axli ábyrgð og komi að þessari vinnu.

Herra forseti. Starfshættir fjárln., sem er sú fagnefnd þingsins sem tekur á fjármálum og fjárlagaferlinu, eru þannig að upp úr miðjum september kemur hún til starfa. Hún fær heimsóknir sveitarstjórna vítt af landinu og svo eftir 1. okt. eða þegar þingsetning hefur farið fram og 1. umr. um fjárlagafrv. er lokið tekur hún til starfa við fjárlagafrv. Þá er það í megindráttum orðið fullmótað og litlu breytt úr því nema leiðréttingar komi frá ríkisstjórninni í fjárlagavinnuferlinu.

Síðan vinnur fjárln. og skilar síðan af sér fjárlagafrv. til 3. umr., fyrir jól, og með því er í raun lokið vinnu fjárln., a.m.k. í megindráttum. Það er hrein tilviljun ef fjárln. kemur saman til fundar eða fjallar um fjárlögin, um ríkisfjármálin, um þróun efnahagsmála eða um framkvæmd fjárlaga frá áramótum til hausts. Þetta, herra forseti, tel ég óeðlilegt. Ég held að þarna megi bæta verulega úr og styrkja beina aðkomu þingsins að fjárlagagerðinni.

Þegar við lítum að öðru leyti á fjárlagagerðina sjálfa þá sýnist mér að aðkoma þingsins og þingnefnda að þeirri vinnu sé stöðugt að verða örðugri, líkt og í öðrum málum. Vinnan fer í auknum mæli fram í ráðuneytunum og nefndir þingsins verða að reiða sig á þá vinnu sem þar er unnin. En þar er framkvæmdarvaldið og að mínu viti er mikilvægt að Alþingi og þingnefndir geti styrkt stöðu sína og hafi aðgang að óháðum ráðgjöfum og sérfræðivinnu.

Tökum t.d. fjárln. og fjárlagagerðina. Nú liggja fyrir hugmyndir um að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Hún hefur þó verið sá aðili sem hefur lagt, að því marki sem hægt hefur verið, hlutlaust mat á fjárlagaforsendur og svo þróun efnahagsmála til fjárln. Nú stendur til að leggja hana niður og verður þá fjárln. að treysta á þau gögn og þann undirbúning sem framkvæmdarvaldið sjálft leggur fyrir nefndina. Ég tel, herra forseti, að það sé miður og að huga verði að því að styrkja störf þingnefnda og þingsins við undirbúning og framkvæmd fjárlaga.

Um fjáraukalög eru skýr ákvæði í fjárreiðulögum, í 43. gr. fjárreiðulaga stendur, með leyfi forseta:

,,Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.``

Og í 44. gr. fjárreiðulaga stendur, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skal leitað í lokafjárlögum, sbr. 45. gr.``

[12:00]

Nú er það svo, herra forseti --- ég hef áður gert það að umtalsefni í tengslum við fjáraukalögin --- að í raun er það óbreytt í þessu frv. til fjáraukalaga að í megindráttum eru þar tillögur sem ekki krefjast þeirra neyðaraðgerða sem heimild til fjáraukalaga gerir ráð fyrir. Að vísu er það rétt að inn koma launahækkanir sem orðið hafa á tímabilinu, enda er heimild fyrir því í sjálfum fjárlögunum. Þar er heimilt að taka inn umsamdar kjarabætur, umsamdar launabreytingar á tímabilinu. Um fæstar aðrar breytingar hér ætti hins vegar að taka slíka skyndiákvörðun.

En lítum aðeins á þetta frv. Í fyrsta lagi hafa þær meginbreytingar orðið á teknahliðinni að gert er ráð fyrir því að skattur á vöru og þjónustu verði mun lægri en gert var ráð fyrir, vegna samdráttar í innflutningi og minnkandi neyslu hér á landi. Vissulega er það fagnaðarefni ef dregur úr viðskiptahallanum og neyslan og innflutningurinn á almennum neysluvörum færist í átt að því sem þjóðartekjur bjóða upp á. En það sem þar á að koma á móti, herra forseti, og er afar veikt, er að ætlunin er að fá auknar tekjur af sölu eigna. Í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir 15,5 milljörðum kr. í tekjur af sölu eigna en í þessu frv. til fjáraukalaga er gert ráð fyrir að það sé aukið um 6 milljarða kr., að samtals verði seldar eignir fyrir 21,5 milljarða á þessu ári. Þarna er fyrst og fremst um að ræða fyrirhugaða sölu á Landssímanum og auk þess á Landsbanka og e.t.v. Búnaðarbanka.

Sala á þessum fyrirtækjum er ekki um garð gengin og við höfum öll verið vitni að því hvernig farið hefur með sölu Landssímans, að þar hefur þjóðin í raun hafnað því að Landssíminn verði seldur eins og ríkisstjórnin hafði gert ráð fyrir. Hún tók ekki þátt í því að kaupa hlutabréfin í þessu almenna hlutabréfaútboði sem kallað var. Þjóðin lítur svo á að hún eigi öll Landssímann og er í raun andvíg því að hann sé seldur --- þannig les ég skilaboð þjóðarinnar. Þarna er hins vegar áfram gert ráð fyrir því, til að brúa tekjuþörf ríkissjóðs, að þessi sala fari fram. Fari þessi sala hins vegar fer ekki fram þá standa ríkisfjármálin að því leyti í uppnámi. Þess vegna finnst mér í þessu sambandi um gjörsamlega óraunhæfa tekjuáætlun að ræða.

Ef við lítum síðan á nokkur atriði sem hér eru undir einstökum liðum fjárlagafrv. þá er þar fyrst að telja að fjárlögin í ár gerðu ráð fyrir, að mig minnir, tæplega 4% innbyggðum verðlagshækkunum á árinu. Nú er sýnt að verðlagsbreytingar verða a.m.k. 6,5% þannig að í almennan rekstur stofnana ríkisins mun skorta í kringum 2%, miðað við stöðuna eins og nú er. Ljóst er að margar stofnanir og margt í starfsemi ríkisins mun eiga erfitt með að mæta þessum verðhækkunum án þess að fá aukið fé á fjárlögum en því er ekki til að dreifa í þessu fjáraukalagafrv.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur hér gert grein fyrir nokkrum atriðum í fjáraukalagafrv., þar sem gert er ráð fyrir útgjaldaauka, sem fara á svig við fjárreiðulögin. Fyrst er til að taka framlög til forsrn. Þar er gerð tillaga um 20,7 millj. kr. hækkun til skrifstofunnar vegna aukins rekstrarkostnaðar í ár og í fyrra. Þrátt fyrir að fjmrn. hafi sett strangar og skýrar reglur til stofnana ríkisins um meðferð ríkisfjármálanna þá virðast ráðuneytin sjálf eiga erfiðast með að fylgja þeim.

Ég vil benda á fleira undir forsrn. Óbyggðanefnd virðist vera stofnun í örum vexti. Henni var í upphafi ætlað að vera lítil stofnun, eitt eða tvö stöðugildi, til að samræma og fylgjast með störfum. En nú, herra forseti, er gert ráð fyrir því að auka fjármagn til hennar á þessu ári um 10,8 millj. kr. Mig minnir að hún sé þá komin í einar 50--60 milljónir í heild á þessu ári. Ekki verður annað séð en að framlög til hennar muni áfram rjúka upp. Það er því virkilegt áhyggjuefni að horfa til þeirrar þróunar.

Ég vil líka víkja að utanrrn. Utanrrn. er það ráðuneyti sem hefur hækkað hvað mest á fjárlögum á síðustu árum. Á árunum 1998--2000 hefur, að því er ég best veit, hækkun til þessa ráðuneytis orðið um 30% af raungildi á fjárlögum eða í kringum 1.200 millj. kr. Áfram hækka framlögin á þessu ári. Ég vil t.d. benda á að hér er sótt um 30 millj. kr. á fjáraukalögum vegna undirbúnings utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins sem fyrirhugað er að halda á Íslandi vorið 2002. Í fjárlagafrv. næsta árs eru ætlaðar nærri 200 millj. kr. til þessa verkefnis og kemur fram í umsögn um það að búist sé við að sú upphæð verði hærri. Ég býst sjálfur við að sú upphæð verði verulega miklu hærri. Ætlunin er að verja miklum fjármunum í að halda ráðstefnu hér á vegum Atlantshafsbandalagsins sem að mínu mati er afar óskynsamlegt, í fyrsta lagi að eyða fjármunum í þetta og í öðru lagi að draga athyglina að Íslandi, inn í þau hernaðarumsvif sem nú virðast því miður fara vaxandi með beinni eða óbeinni þátttöku Atlantshafsbandalagsins. Fyrir litla friðelskandi þjóð eru þetta ekki tímar til að vera að dragast inn í slíka hernaðartengda ráðstefnu.

Hjá sjútvrn., herra forseti, er farið fram á um 50 millj. kr. í fjáraukalögum vegna hvalatalningar í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 13. mars 2001. Í sjálfu sér er mjög eðlilegt að hvalir séu taldir en að það skuli þurfa að koma svo skyndilega til að það fari inn í fjáraukalög er alveg óþarfi.

Í síðasta lagi vil ég nefna, herra forseti, vanda framhaldsskólanna. Hann er mikill. Á honum virðist ekki tekið í þessu fjáraukalagafrv. Ég vil t.d. benda á að bara að hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, (Forseti hringir.) er hallinn tæpar 40 millj. kr. frá fyrri árum, svo er og ástatt um marga aðra skóla og virðist ekkert á því tekið.

Herra forseti. Ég mun svo koma að fleiri þáttum í umfjöllun um fjáraukalögin í seinni ræðu minni í dag.