Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:09:27 (421)

2001-10-11 12:09:27# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:09]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Niðurstaða fjárlagafrv. og fjáraukalagafrv. sem fylgir þar á eftir mun hafa afgerandi áhrif á þróun efnahagslífs í landinu og mikla þýðingu. Það ber því að vanda til þeirra verka eins og gert hefur verið og frv. hæstv. fjmrh. ber með sér.

Við höfum hér við framlagningu fjárlagafrv. fjallað um almenn atriði í þróun efnahagslífs þjóðarinnar. Þar hefur verið rætt um nokkur helstu áhersluatriðin svo sem að ná niður verðbólgu svo fljótt sem verða má, viðhalda stöðugleika í efnahags- og atvinnulífi og örva atvinnulífið með öllum hætti innan áhrifasviðs ríkisvaldsins. Það hefur m.a. verið gert með því að boða fyrirhugaðar skattalækkanir.

Hlutverk ríkissjóðs við að ná þessum markmiðum er afar mikið. Það er mikið vegna þess að ríkið þarf að ganga á undan með góðu fordæmi. Útgjöld ríkisins hafa áhrif á þensluna í þjóðfélaginu og þarf því ríkisvaldið að taka vel til hendinni og halda þar vel um alla þræði.

Ljóst er að við þurfum að ná þessum markmiðum á skömmum tíma og til þess hefur ríkisvaldið ekki mörg tæki. Það tekur langan tíma að vinda ofan af umfangsmiklum rekstri og því eru skjótvirk tæki ríkisvaldsins næstum eingöngu útgjaldamegin, þ.e. að halda útgjöldum ríkisins í skefjum. Ég tel því mikilvægt að fjáraukalögin beri vott um þetta markmið, þ.e. að hemja útgjöldin.

Skipta má útgjöldum í fjáraukalögum í tvennt. Annars vegar eru þau nauðsynleg viðbrögð ríkisstjórnarinnar við aðsteðjandi og nauðsynlegum útgjöldum. Það hefur svo sannarlega verið allnokkuð um slík tilefni á síðasta ári, t.d. vegna heilbrigðisþjónustunnar, tryggingamála, viðbrögð við dómum Hæstaréttar, t.d. öryrkjadómnum, og fleira mætti telja. Allt eru þetta þörf og brýn mál til þess að koma til móts við þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu og þá sem þurfa á þjónustu velferðarkerfisins að halda.

Hinn þáttur útgjalda í fjáraukalögum er hins vegar tengdur margvíslegum beiðnum ráðuneyta sem tengjast alloft rekstri. Því er ekki að neita að við fljótlega skoðun hefðu einhver þessara verkefna mátt vera inni á fjárlögum síðasta árs. Jafnvel hefði mátt taka þau inn á fjárlög ársins 2002. Við vitum vel að fjárþörf ráðuneytanna til margra brýnna verkefna er mikil. Það verður þó að segja eins og er, að við þær aðstæður sem búum við, í tímabundinni niðursveiflu í efnahagslífinu, er sáralítið svigrúm ef nokkurt til þess að ganga lengra en fjáraukalagafrv. segir hér til um.

Virðulegi forseti. Fjáraukalögin eru núna rúmir 13 milljarðar. Það eru um 6% af fjárlögum ársins í ár. Ég tel að Alþingi og ríkisstjórnir á næstu árum og missirum eigi að setja sér það markmið að ná þessu hlutfalli niður, að fjáraukalögin séu ekki svo hátt hlutfall sem nú er. Ég tel að fjáraukalög ættu, þegar frá eru taldir kjarasamningar og útgjöld tengd kjarasamningum, svo sem lífeyrisskuldbindingar, ekki að fara yfir 1--2%. Þannig hefðu fjáraukalögin í ár þurft að vera, aðeins 2--3% í heild eða um 5--7 milljarðar. Þetta tel ég óframkvæmanlegt við aðstæðurnar núna en ég tala hér fyrst og fremst um framtíðarmarkmið ríkisstjórna og fjárln.

Fjárln. tekur nú frv. til fjáraukalaga til vinnslu og mun leggja sig alla fram um góð vinnubrögð hvað það snertir. Við fögnum því að frv. komi fram svo snemma og að hægt sé að vinna að því jafnhliða fjárlagafrv. sjálfu. Ég tel að nefndin eigi í vinnu sinni að beita sér fyrir því að áætlanagerð á vegum ríkisins verði bætt og að nefndin eigi að hafa frumkvæði og beita áhrifum sínum til þess að stofnanir haldi sig innan fjárlaga.

Nefndin mun leitast við að eiga sem best samstarf við hæstv. fjmrh., ríkisstjórn og Alþingi. Nefndin hefur þegar hafið störf eins og fram kom í máli hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. Þar hefur verið beðið um margvíslegar sundurliðanir og skýringar. Ég tel að það sé vel. Við eigum að taka allt slíkt, skoða það vel og vanda til verka þannig að þessi fjáraukalög verði framlag Alþingis til bættrar efnahagsstjórnar í landinu og til þess að ná því markmiði að hin tímabundna sveifla niður á við í efnahagslífi þjóðarinnar verði eins grunn og kostur er og uppsveifla í hagkerfinu nái sér sem fyrst af stað.