Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:17:07 (422)

2001-10-11 12:17:07# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:17]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er raunar svo vegna umræðna um ríkisfjármálin að það vill verða leiðigjarnt til lengdar að japla á sömu atriðunum eins og belja á frosinni næpu. En hjá því verður ekkert komist. Öll þessi umræða þarf að vera í samhengi þannig að ýmislegt af því sem ég hef áður sagt í umræðu um fjárlög og fleiri atriði þessu að lútandi mun ég endurtaka að einhverju leyti. Það væri sök sér ef eitthvert mark væri tekið á stjórnarandstöðunni í þessu sambandi þó að maður yrði að margendurtaka ummælin. En svo er ekki. Svo er alls ekki í neinu efni.

Hér hef ég hamrað á því að rekstur ríkisins, fjárlögin, væru einna mestur skaðvaldur vegna þeirrar þenslu sem ríkir í þjóðfélaginu. Þau stórhækka frá ári til árs. Mér taldist svo til að þau hefðu hækkað um 13,5% frá fjárlögunum 2000, fjárlagafrv. sem afgreitt var fyrir 2001, og nú bætast við um 6%. Þetta er sem sagt hækkun í fljúgandi þenslu um 20%. Enginn af hæstv. ríkisstjórnarmönnum virðist vilja leggja eyru við.

Ég hef haldið því fram og held því enn fram að útgjaldahlið fjárlaga hafi úrslitaáhrif, sé það vopn sem Alþingi eða öllu heldur ríkisvaldið, svo maður beini orðum beint að því, hefur til þess að hamla gegn verðþenslu og verðbólgu. Hér búum við við þrefalda eða fjórfalda verðbólgu miðað við viðskiptalönd okkar en samt sem áður er haldið áfram að kynda bálið með þeim ótrúlegu aðferðum að stórhækka útgjaldahlið fjármálanna. Ég hef enga sannfæringu fyrir því, a.m.k. hníga engin rök að því, og geta sannfært mann um að þetta breytist nú. Fjárlagafrv. nú er 14% hærra en það fjárlagafrv. sem fyrst var lagt fram á síðasta þingi. En við skulum vona að Eyjólfi batni.

Þetta er háskaleikur sem menn hljóta að átta sig á. Af orðum hv. formanns fjárln. áðan var að skilja að útgjöld ríkissjóðs hefðu áhrif á þensluna í landinu. Hann er þá búinn að uppgötva það og það er svo sem nokkur árangur að formaður fjárln. telur að útgjöld ríkisins hafi áhrif á þensluna í landinu. En hann sagði líka að það tæki langan tíma að vinda ofan af ástandinu og hann ætlar sér til þess mörg ár því mörg ár taki að vinda ofan af ástandinu og móta bætta efnahagsstefnu. Í þessum orðum felst mjög hörð gagnrýni auðvitað á ráðandi og ríkjandi fjármálayfirvöld.

En fleira á erfitt uppdráttar en aðeins rekstur ríkisins. Við vitum að sveitarfélögin hafa stóraukið skuldir sínar, eins og sjá má reyndar á kaupum ríkisins á Orkubúi Vestfjarða þar sem sveitarfélögin neyðast til þess að selja þessa mjólkurkú sína til þess að rétta við fjárhag sinn. Sum eru raunar þannig sett að þau verða áfram í mikilli úlfakreppu. Það sagði mér sveitarstjóri þeirra í Vesturbyggð eigi alls fyrir löngu að þeir ættu langt í land með að ná fótfestu í fjármálum sínum sem þyrfti.

Hitt er svo annað mál að í fjáraukalögum á margt sér eðlilegar rætur. Það er aldrei hægt að sjá fyrir öll atvik sem upp koma í rekstri ríkisins. Aftur á móti þyrfti það að vera sem minnst og ekki er fyrir það að synja að um einstakar ríkisstofnanir er farið öðrum höndum en ætlast er til í fjárreiðulögum milli ára. Þar er fyrst að nefna forsrn. Frá afgreiðslu fjárlaga utan fjárlagaheimilda á nú að bæta ráðuneytinu upp fjárframlög um 370 millj. kr. eða rúma milljón á dag. Og þetta fjármagn langmest eða 300 milljónir er ætlað til þess að undirbúa einkavæðingu, sölu ríkiseigna.

Það má fyrr vera sprengingin frá því sem áður hefur birst í áætlunum um kostnað af sölu ríkiseigna. Það er alveg nauðsynlegt að fá þessa gríðarlegu tölu sundurgreinda, 300 milljónir. Hvað fær nefndin í kaup? Fær hún kannski launauppbót fyrir meðferð sína á sölu Landssímans eða meðferð sína við undirbúning á sölu Landsbankans, þar sem brunað er áfram í þeim málum án þess að gá til neinna átta og ekki þeirrar að verð þessara verðmætu ríkiseigna hefur hríðlækkað núna hin tvö síðustu árin? En menn þurfa að ná inn fjármagni til þess að færa til tekna inn á ríkisreikning til að glansmyndin verði ótrufluð. Nei, ég legg áherslu á að maður fái upplýsingar og sundurliðun á þessum gríðarlega kostnaði sem þarna skýtur upp kollinum.

Enn fremur er alveg augljóst að engin tök hafa enn náðst á rekstri heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þarna þarf að flytja gríðarlegar fjárhæðir til hennar og þrátt fyrir það lengjast biðlistarnir. Þrátt fyrir það er uppi mikil ókyrrð og átök hjá starfsfólki þeirrar greinar sem ekki sér fyrir endann á.

Ég verð að segja að mér ofhasaði að hlusta á forseta Alþingis, hv. þm. Halldór Blöndal, þegar hann ræddi um Alþingi og fjárfestingar á vegum þess, þar sem hann sagði að vegna fjárreiðu í málefnum Alþingis, og ég held ég hafi það síðan orðrétt, getur Alþingi ekki treyst fjármálayfirvöldum né eftirliti með opinberum framkvæmdum. Ég bið forláts ef þetta er ekki nákvæmlega eftir haft. En hér er forsetinn sem sagt bæði að kenna fjármálayfirvöldum um hvað úrskeiðis fór hjá Alþingi og lýsa yfir vantrausti á fjármálayfirvöld. Ég óska eftir því sérstaklega að hæstv. fjmrh. gefi manni skýringu á réttmæti þessara ummæla því að þetta er yfirvaldið okkar á hinu háa Alþingi.

Frægt varð á sínum tíma þegar menn á Austurlandi gerðu hinar svonefndu Egilsstaðasamþykktir, þar sem samþykkt var að ríkissjóður væri skuldlaus. Þetta var á tímum Jónasar frá Hriflu. Í leiðinni var líka samþykkt að Jónas væri ekki geðveill. Það heitir núna geðröskun. Og þegar mann missa alveg vitið í stjórn fjármála þá er það vitröskun. Öllu er tekið með mýktinni af því sem að er.

Og nú mun sjálfsagt landsfundur Sjálfstfl. samþykkja að ríkissjóður sé skuldlaus, --- ég veit að enginn mun fagna því meira en hæstv. fjmrh. --- að gengið sé að styrkjast, viðskiptahalli að hverfa, erlendar skuldir að lækka, vextir að lækka --- og það sem að er í þeim efnum verður Birgi Ísleifi Gunnarssyni kennt um, ef eitthvað er að --- stöðugleiki fullkominn. Þess verður kannski getið í framhjáhlaupi, þó það komi nú ekki fjármálum við, að náðst hafi bærilegar sættir í fiskveiðimálunum.

Öll þessi atriði sem ég hef hér nefnt hljóta að verða falin inni í samþykktum landsfundar Sjálfstfl. af því sem þau má öll finna í orðræðum hæstv. forsrh. á undanförnum vikum og mánuðum, bara öll.

En það er svo sem ekki á því von, ef menn eru svona blindir í þessum stóru málum okkar, að þeir veiti rétta leiðsögn.