Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:28:48 (423)

2001-10-11 12:28:48# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:28]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Fjárlög og fjáraukalög eru fastir liðir á dagskrá þingsins eins og lög gera ráð fyrir og verð ég að segja hæstv. fjmrh. það til hróss að fjáraukalögin eru fyrr á ferðinni en oft áður og gott er til þess að vita að menn vilja upplýsa þingið sem allra fyrst um það hvað hafi farið fram úr því sem gert var ráð fyrir í fjárlögunum sjálfum.

Það er vandaverk að gera fjárlög þannig úr garði að engu skeiki, enda ekki hægt. Eigi að síður eru fjárlögin byggð upp á mjög mismunandi hátt eins og margir hafa bent á hér þannig að sumt er hægt að áætla betur en annað. Sjálfvirk útgjöld eins og gengisbreytingar og verðbólguhækkanir launa, lífeyrisgreiðslur og annað slíkt, er erfitt að mæla fyrir fram. Annað má vel sjá fyrir, t.d. framkvæmdir eða ákvarðanir, stórar ákvarðanir sem koma oft og tíðum fram mjög skyndilega og enginn hefur getað áttað sig á er annað.

[12:30]

Ég hef tekið eftir því að sveigjanleiki í ríkisfjármálum er mun meiri en tíðkast í áætlanagerð t.d. sveitarfélaga þar sem fjárhagsáætlanir eru oftast nær þannig klipptar að fjárveitingar eru einungis til ársins og keyrsla fram úr þeim er yfirleitt óheimil. Samkvæmt þeim reglum sem gilda hjá ríkinu er það þó þannig að sjálfvirkni í rekstri ríkisstofnana er gríðarleg og framúrkeyrsla þeirra getur verið allt að einn og hálfur mánuður af rekstri þeirra samkvæmt þeim verklagsreglum sem í gildi eru. Þannig hefur t.d. Landspítalinn -- háskólasjúkrahús heimild til þess að fara, samkvæmt þessu, 2,2 milljarða fram úr á einu ári ef þannig stendur á. Ef horft er á alla þessa sjálfvirkni áttar maður sig á því hvað hlýtur að vera erfitt að halda utan um það að reksturinn rúmist innan ramma fjárlaganna. Síðan falla slíkar sprengjur eins og t.d. hefur gerst í heilbrigðiskerfinu, þegar búið er að keyra svona fram úr lengi er allt í einu ekki hægt að ganga lengra og þá koma upp björgunarmál eins og urðu hér í fyrra og hittiðfyrra í gegnum fjárln., sem hafa leitt til þess að nú er ekki beðið um neina aukafjárveitingu frá heilbrigðiskerfinu vegna sjúkrahúsanna þrátt fyrir að við vitum að það eru hundruð milljóna sem standa fram úr og hefur þegar verið lýst yfir að Landspítali -- háskólasjúkrahús fari 300 milljónir fram úr áætlun, en það rúmast sem sagt innan þessarar sveigju sem er einn og hálfur mánuður í rekstri spítalans.

Herra forseti. Ég álít að sveigjan sé allt of mikil og það sé ekki nokkur leið fyrir fjmrn., ef þetta er nákvæmlega svona, að stöðva miklar framúrkeyrslur. Þess vegna álít ég að skoða þurfi mjög þær verklagsreglur sem eru í gildi og átta sig á því hvort, þótt einhverjar viðvörunarbjöllur fari af stað áður, þarna sé ekki allt of langt gengið.

Hér hefur ýmislegt verið tíundað sem farið hefur fram úr og vel hefði mátt sjá fyrir, og ég get alveg tekið undir það. Það kom mér mjög á óvart þegar í ljós kom að flugvöllurinn í Reykjavík hafði fengið 250 millj. kr. án þess að nokkur heimild væri fyrir því. Ég ætla ekki að efast um að þetta hafi verið skynsamlegt, en ekki var haft neitt samráð um það við neina aðila þannig að þarna verða allt í einu til einhver útgjöld sem að mínu áliti hefðu ekki þurft að koma til en eru samt ákveðin. Ég tel, herra forseti, að það sem hefur gerst undanfarið í rekstri ríkisins, og þá fyrst og fremst í málum og málefnum sem snúa að framúrkeyrslum vegna stofnkostnaðar eins og dæmin sanna, að það hafi dregið mjög úr trúverðugleika fjárlagagerðarinnar og úr trúverðugleika kerfisins. Ekki er ljóst hver ber ábyrgð á hverju.

Það er t.d. algjörlega óviðunandi að Framkvæmdasýsla ríkisins geti komist upp með að segja að það séu einhverjir aðrir sem beri ábyrgð á framkvæmdum sem eru á þeirra vegum ellegar þá að ráðherra standi uppi með að þeir geti ekki heldur lýst því yfir hreint og klárt að þeir beri ábyrgð á þeim framkvæmdum sem standa yfir á vegum ráðuneytis þeirra. Þetta eru náttúrlega engar verklagsreglur og ég held að vel sé hægt að leita í smiðju hjá sveitarfélögunum til að ná betur utan um þessa hluti. Þar er alveg augljóst hver það er sem ber ábyrgð á framkvæmdum, það er bæjarstjórinn sjálfur í samráði við bæjarráðið og þar er aðgangur á milli mjög greiður, sem má kannski segja að sé ekki milli ríkisstjórnar og Alþingis.

Ég held, herra forseti, að það sé fyllilega tímabært líka að reyna að auka samráð Alþingis, og þá sérstaklega fjárln. og ríkisins og þá hugsanlega fjmrn. og fjárln., um það hvenær aukin framlög úr ríkissjóði umfram fjárhagsáætlanir eru nauðsynlegar. Ég sé ekkert að því að samráð þessara tveggja aðila sé meira en það er í dag. Mér finnst mjög miður að maður sjái einhvern kostnað kominn inn í fjáraukalög, kostnað sem á að vera búið að leita heimildar fyrir áður en farið er út í framkvæmdina, en stöndum einfaldlega frammi fyrir því að búið er að eyða þessum peningum, framkvæmdin er komin og þar með erum við að afgreiða eitthvað sem enginn getur breytt í sjálfu sér.

Þess vegna skora ég á hæstv. fjmrh., sem ég veit að er annt um að trúverðugleiki fjárlaganna sé mikill, og hann hefur sýnt það, að hann auki það samráð sem er þegar til staðar --- ég tek fram að ég lít ekki svo á að meiri hluti og minni hluti sé það sama, ekki endilega. Samstarf þessara aðila innan fjárln. hefur verið gott en að lokum endar þetta allt hér inni í sölum Alþingis. En ég lít svo á að samstarf ráðuneytisins og fjárln. eigi að verða meira. Og ég vona að unnið verði að því.