Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:45:50 (428)

2001-10-11 12:45:50# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Kristján Pálsson gerir sér grein fyrir veigamiklum ágöllum við vinnu fjárlaga og ábyrgð og framkvæmd þeirra og fjáraukalögin. Ég vil þó vekja athygli hans á einu. Hann talaði um nauðsyn þess að hafa samráð. En lögin um fjárreiður ríkisins kveða á um miklu meira en samráð. Þau kveða á um að útgjöld utan fjárheimilda séu óheimil nema í algjörum undantekningartilvikum sem eru tilgreind, þ.e. ófyrirséð atvik eins og kjarasamningar eða ný löggjöf sem þarf að grípa til skyndilega. Að öðru leyti ber að leita heimilda fyrir fram, ekki samráðs heldur heimilda fyrir fram. Og það er þetta sem skortir á að sé gert.

Hér dugar því ekki samráð. Hér verða að koma til gjörbreytt vinnubrögð og að aðilar átti sig á því hver í rauninni beri ábyrgðina á þessari framkvæmd. Það er því ekki nóg að hæstv. ráðherra hafi samráð við einstaka nefndarmenn. Honum ber að sjá til þess að fjárreiðulögum sé fylgt. Og það er þingsins að færa þetta til betri vegar.

Ég vildi benda hv. þm. Kristjáni Pálssyni á það, þrátt fyrir hans annars góðu athugasemdir við það sem betur mætti fara, að þetta eru lög.