Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:16:14 (436)

2001-10-11 14:16:14# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom að venju víða við í ræðu sinni. Ég ætla að einskorða mig við eitt atriði vegna þess að líking hv. þm. við það að fara ekki að fjárlögum var í þá átt að það væri það sama og að brjótast inn í banka. Hann tók ákveðið dæmi á bls. 66 í frv. varðandi hvalatalningu og benti réttilega á að ákvörðun um þessa hvalatalningu hefði verið tekin af ríkisstjórninni þann 13. mars 2001 og að þessi talning væri búin að fara fram. Hann sagði jafnframt að þessi talning ætti í raun að fara fram á fimm ára fresti en að þessu sinni hefðu liðið sex ár á milli talninga. Það er eiginlega ekki hægt að ræða nánar um málið fyrr en svar liggur fyrir frá hv. þm. um það hver það hefði verið í þessu tilfelli, miðað við líkingu hv. þm., sem braust inn í bankann.