Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:18:40 (438)

2001-10-11 14:18:40# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom sér hjá því að svara spurningunni um það hver hefði í þessu tilfelli brotist inn í bankann en hélt sig áfram við líkinguna þannig að það er nauðsynlegt að endurtaka spurninguna til hv. þm. um það hver í þessu tilfelli, þessu ákveðna tilfelli sem hv. þm. nefndi, braust inn í bankann miðað við hans líkingar.

Nauðsynlegt er að rifja upp með hv. þm. hvað segir í lögum um það hver hafi eftirlit, af því tilefni að hv. þm. ræðir gjarnan um forstöðumenn stofnana og ábyrgð þeirra --- sem að sjálfsögðu er ekki lítil --- en það eru fleiri sem bera ábyrgð því að í reglugerð um Stjórnarráðið segir í 4. gr. að ,,fjármálaráðuneytið hefur almennt eftirlit með framkvæmd fjárlaga og veitir almennar leiðbeiningar þar um. Það fylgist með því að heildarútgjöld stofnana séu í samræmi við fjárheimildir``.

Nánar er síðan fjallað um þetta í öðrum greinum og vikið að því að ráðuneytisins sé ekki bara að hafa eftirlit með framkvæmd einstakra mála og fjárreiðum stofnana, þ.e. einstakra ráðuneyta, heldur segir orðrétt í 12. gr., með leyfi forseta:

,,Ráðuneyti skal reglubundið bera saman áætlun fjárlaga við útgjöld, ekki sjaldnar en annan hvern mánuð.`` --- Og síðan er haldið áfram um það hvernig bregðast eigi við ef menn hafa farið fram úr.

Mér sýnist því, herra forseti, augljóst af orðum og dæmi hv. þm. að hann sé annaðhvort að tala um hæstv. sjútvrh. eða hæstv. fjmrh., að annar hvor hæstv. ráðherra hafi brotist inn í banka.