Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:24:55 (442)

2001-10-11 14:24:55# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. ,,Ég sé ekki hvernig NATO tengist íslenskum velferðarmálum,`` segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Jú, við erum að tala um útgjöld ríkisins og sparnað í útgjöldum og hv. þm. reynir að víkja sér undan alvarlegri spurningu með útúrsnúningum af þessu tagi. Hins vegar opnaði hv. þm. Pétur H. Blöndal hug sinn og ég vona að sem flestir hafi heyrt þennan talsmann Sjálfstfl. tala til þjóðarinnar og tala til starfsfólks á sjúkrahúsum og í skólum landsins.

Hann segir: ,,Við skulum gera eins og þeir gerðu hjá Granda. Við skulum fækka starfsmönnum sjúkrahúsanna. Við skulum fækka læknum á sjúkrahúsunum um helming. Við skulum fækka hjúkrunarfræðingum um helming. Við skulum fækka sjúkraliðum um helming og allt þetta munum við gera án þess að skerða þjónustuna.`` Er það Sóltúnsmódelið sem hv. þm. hefur í huga sem kemur sannarlega til með að verða miklu dýrara fyrir ríkissjóð og skattborgarana en sú þjónusta sem rekin er á vegum ríkis og sveitarfélaga?