Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:38:12 (451)

2001-10-11 14:38:12# 127. lþ. 9.4 fundur 136. mál: #A samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar# (reglugerð) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:38]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Hér er lagt fram frv. um breytingu á lögum nr. 7/1936. Það er ein setning, aðeins um framsal löggjafarvalds svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Viðskiptaráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.``

Ég vil benda á, herra forseti, að lög nr. 7/1936 eru hin ágætustu lög sem vel hafa gagnast á viðskiptasviðinu. Hið háa Alþingi setti þar lög sem þegnarnir hafa búið við í 65 ár án þess að framkvæmdarvaldið hafi getað sett reglugerðir um framkvæmd laganna. Það er vel og er slík löggjöf hinu háa Alþingi til sóma.

Ég gagnrýni hið mikla og eftirlitslausa framsal löggjafarvalds sem hefur átt sér stað og hef þess vegna lagt fram þáltill. sem þegar hefur verið útbýtt hér á þinginu þar sem tekið er á þessum málum. Í tengslum við hana mun ég reifa frekar þessi viðhorf um framsal löggjafarvalds. Ég tel að hið háa Alþingi eigi að fara með mikilli varúð í framsal á löggjafarvaldi og skoða það ætíð gagnrýnum augum. Framsal af þessu tagi er einungis til að skerða 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins.

Þessu vildi ég koma á framfæri, herra forseti. Ég tel að skoða þurfi betur hvort unnt sé að uppfylla tilgang þessa frv. með öðrum hætti en reglugerðarheimild. Ég bendi á að mér sýnist sem þessi reglugerð eigi aðeins að vera varnagli sem er hægt að grípa til. Ég tel það hins vegar kost þessara laga, nr. 7/1936, að þau eru, eins og löggjöf var oft á árum áður, vönduð, góð og tæmandi og sett á hinu háa Alþingi en ekki með ákvæðum úr ráðuneytunum, reglugerðum og stjórnvaldsfyrirmælum.