Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:40:40 (452)

2001-10-11 14:40:40# 127. lþ. 9.4 fundur 136. mál: #A samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar# (reglugerð) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá síðasta ræðumanni. Þetta er hárrétt ábending. Ég fagna því þingmáli sem hv. þm. hefur lagt fram varðandi þetta. Það er allt of mikið um að framkvæmdarvaldið leiti til þingsins eftir reglugerðarheimildum sem fela raunverulega í sér framsal á valdi til framkvæmdarvaldsins.

Út af fyrir sig hef ég ekki kynnt mér þetta sérstaka mál sem hér er til umræðu. En ég saknaði þess nokkuð í framsöguræðu hæstv. ráðherra að hún skyldi ekki gera þinginu betri grein fyrir því en fram kemur í grg. með frv. og í framsögu hennar hvað í þessu getur falist. Hér er á ferðinni ein lítil lagagrein um að viðskrh. sé heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð. Þetta virðist ákaflega saklaust en það er nauðsynlegt að við fáum frekari vitneskju um hvað hér býr að baki og hvernig ráðherra hyggst beita þeirri heimild sem hann kallar eftir frá þinginu.

Í greinargerðinni er talað um að það hafi ekki verið talið nauðsynlegt við upptöku þessarar tilskipunar, sem fjallar um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, í íslenskan rétt að setja sérstaka reglugerð vegna upptalningar á ósanngjörnum samningsskilmálum í viðauka. Hvað er hér átt við nákvæmlega með ,,ósanngjörnum samningsskilmálum``, sem ráðherra er að kalla eftir heimild frá Alþingi til þess að beita í slíkum tilvikum? Hér kemur fram að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi ekki talið að viðauki við tilskipunina með upptalningu á ósanngjörnum samningskilmálum væri tekinn upp í rétt aðildarríkjasambandsins með viðunandi hætti og að málarekstur hafi verið í gangi fyrir dómstóli Evrópubandalagsins, mál framkvæmdastjórnarinnar gegn Svíþjóð. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Í hvaða tilvikum getur það komið upp að ráðherrann beiti slíku ákvæði sem hér er kallað eftir? Hér er ég einungis að leggja fram fyrirspurn til að glöggva mig betur á því hvað ráðherrann biður Alþingi um. Ég fæ þetta mál að vísu til skoðunar í efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti en hefði talið æskilegt, ekki síst með hliðsjón af þeirri ábendingu sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni um framsal á valdi frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, að vita hvað í frv. felst.