Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:43:48 (453)

2001-10-11 14:43:48# 127. lþ. 9.4 fundur 136. mál: #A samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar# (reglugerð) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki stærsta málið sem ég mun flytja á þinginu í vetur. Það er nokkuð ljóst og mér er svo sem ekkert óskaplega sárt um það. Ég tel þó að það feli í sér ákveðna neytendavernd og þess vegna sé ástæða til að gera þessa breytingu. Auðvitað er full ástæða til þess að fara nákvæmlega ofan í það í hv. nefnd hvort við í ráðuneytinu séum ekki að gera rétt með því að leggja til breytinguna.

Eins og ég rakti í knappri framsöguræðu minni snýst málið um hugsanlega ósanngjarna samninga við neytendur. Eins og fram kom eru uppi slík mál í sambandi við Svíþjóð og EFTA hefur komið með fyrirspurn varðandi þetta. Þess vegna er þessi tillaga um breytingu á lögunum gerð, þannig að mál sé þannig háttað að komi til þess að við lendum í svipuðu máli og t.d. Svíar hafa lent í þá höfum við lagalegan og framkvæmdalegan farveg til þess að leysa þau mál.

Ég hvet eindregið til þess að þetta verði skoðað nákvæmlega í nefndinni og endurtek að þetta er ekki stærsta málið sem ég flyt í vetur.