Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:50:53 (457)

2001-10-11 14:50:53# 127. lþ. 9.4 fundur 136. mál: #A samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar# (reglugerð) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Lög eiga að vera tæmandi eftir því sem hægt er. Hér er verið að opna þessi ágætu lög nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með því að setja inn í þau reglugerðarheimild. Það tel ég slæmt og bendi á að þessi lög hafa gilt fyrir þegna landsins í 65 ár án þess að slíka heimild hafi þurft. Ég ítreka því enn og óska eftir því að hv. efh.- og viðskn. skoði hvort hægt sé að finna lausn á þessu máli með öðrum hætti en þessu framsali löggjafarvalds.