Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:52:32 (458)

2001-10-11 14:52:32# 127. lþ. 9.5 fundur 137. mál: #A iðnaðarlög# (iðnráð) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42/1978, með síðari breytingum.

Með frv. þessu er stefnt að nokkrum breytingum á ákvæðum iðnaðarlaga um iðnráð. Er þá höfð hliðsjón af þróun í starfsemi þeirra á undanförnum árum en erfitt hefur reynst að halda uppi starfsemi þeirra í litlum sveitarfélögum. Nú eru einungis starfandi iðnráð á þremur stöðum á landinu, í Reykjavík, á Akureyri og í Hafnarfirði.

Starfsemin felst fyrst og fremst í því að veita umsögn um umsóknir iðnaðarmanna um meistarabréf. Með frv. er felld niður sú skylda samkvæmt iðnaðarlögum að kjósa iðnráð í kaupstöðum en í staðinn er gert ráð fyrir heimild til að stofna iðnráð í sveitarfélagi með yfir 5.000 íbúa.

Hinn 1. des. 1999 voru alls níu sveitarfélög með þann fjölda íbúa, þar af fimm sveitarfélög í Reykjavík og nágrenni, með öðrum orðum: Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær og Mosfellsbær, jafnvel sex sveitarfélög ef Akranes er talið með. Seltjarnarnes var rétt fyrir neðan mörkin með 4.658 íbúa. Hin sveitarfélögin sem voru með yfir 5.000 íbúa voru Reykjanesbær, Akureyri og Árborg. Heimilt verður að hafa eitt iðnráð fyrir Reykjavík og þau nágrannasveitarfélög sem fullnægja skilyrðinu um íbúafjölda.

Það er nýmæli að sameina megi iðnráð í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að lögreglustjóri láti af hendi meistarabréf að fenginni umsögn, annaðhvort næsta iðnráðs, en þar undir fellur iðnráð í viðkomandi sveitarfélagi, eða iðnráðs Reykjavíkur. Með þessu eru höfð í huga ákvæði reglugerðar nr. 217/1971, um kosningu og starfssvið iðnráða. Þó er gert ráð fyrir að ætíð megi leita til iðnráðs Reykjavíkur en ekki þurfi að leita til iðnráðs á staðnum. Slíkt getur falið í sér hagræði þar sem iðnráð er lítt virkt eða sérstakar aðstæður fyrir hendi.

Í 2. gr. frv. er kveðið ítarlegar á um hlutverk iðnráða í lögum með hliðsjón af ákvæðum fyrrnefndrar reglugerðar um kosningu og starfssvið iðnráða. Hlutverk iðnráðanna er að halda uppi eftirliti með ákvæðum iðnaðarlaga varðandi handiðnað og einnig eftir atvikum annarra laga, vera stjórnvöldum almennt til ráðuneytis um mál er iðnað varða og veita eftir atvikum öðrum aðilum aðstoð á sviði iðnaðarmála.

Loks er kveðið á um það í greininni að kosning í iðnráð skuli vera til fjögurra eða sex ára en í gildandi reglugerð hefur verið miðað við fjögur ár. Verði frv. óbreytt að lögum er ekki talið að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.